Venju­lega telst það ekki til tíðinda þegar maður horfir aftur á sjón­varps­þátta­seríu. Game of Thrones var reyndar menningar­legt stór­skrímsli og þættirnir urðu lang­vin­sælustu þættir HBO í átta seríum árin 2011 til 2019. Þetta er því ekki hvaða sjón­varps­þátta­sería sem er!

Ég var lengi að jafna mig eftir að hafa horft á hina al­ræmdu áttundu seríu þáttanna fyrir tveimur árum síðan. Frétta­blaðið hélt úti hlað­varpsseríunni Krúnu­varpinu sam­hliða þátta­röðinni. Þar má glögg­lega heyra hvernig ég fer frá því að vera gífur­lega spenntur þar til ég er sár­svekktur og hrein­lega illa svikinn í lok seríunnar.

Það var því nokkur á­fangi fyrir mig að byrja að horfa á alla þættina aftur, alveg frá upp­hafi með kærustunni minni fyrir nokkrum mánuðum. Við kláruðum átta seríur og horfðum á allra síðasta þáttinn í síðustu viku.

Ég fylgdist spenntur með kærustunni minni fylgjast með ferða­lagi Eddard Stark, lávarðsins af Win­ter­fell til Kings Landing þegar Róbert konungur og öll hans fjöl­skylda kölluðu hann til þjónustu. Fylgdist með við­brögðum hennar þegar Littlefin­ger sveik aðal­per­sónu þáttanna og Ned opin­bera fyrir Cer­sei að hann vissi leyndar­mál hennar og í kjöl­farið missa hausinn.

Öllu spenntari var þó kærastan mín fyrir sögu­þræði Daenerys Targar­yen, ekki að furða, enda ekki á hverjum degi sem að sterk kven­per­sóna vinnur sig upp úr miklum erfið­leikum, frelsar sig úr þræl­dómi, eignast þrjá dreka og brýtur fjötra þræla um víða ver­öld.

Ég fylgdist með því hvernig hún varð sí­fellt spenntari fyrir æ flóknari sögu­þræðinum þar sem Lanni­ster syst­kinin skiptust á að vera ill­mennin, aðal­per­sónurnar, ill­mennin aftur og svo aðal­per­sónurnar að nýju.

Enginn bjóst við því að aðalpersóna þáttanna myndi missa hausinn fyrir geigvænleg mistök sín í fyrstu þáttaröðinni.
Mynd/HBO

Þegar kom að áttundu seríunni, þeirri al­ræmdu, þessari sem GoT nördar rífast enn um í net­heimum, átti ég stundum erfitt með að hemja mig. „Þetta at­riði var ein­mitt um­deilt!“ sagði ég til að mynda þegar Jon Snow kvaddi sinn tryggasta vin, dægu­rúlfinn Ghost í Win­ter­fell að lokinni orrustu við nætur­konunginn og hina ís­upp­vakningana.

Ég hamdi mig við að segja ekkert þegar Euron Greyjoy birtist skyndi­lega við Dragonstone og sallaði niður næst­síðasta dreka Daenerys Targar­yen með risa­stórum lás­bogum. Ég stóðst þó ekki mátið við að spyrja hana hvað henni finndist.

Euron varð allt í einu ótrúlega góður í að skjóta af risastórum sporðdreka meistara Qyburn. Það böggaði aðdáendur en ekki venjulega áhorfendur.
Mynd/HBO

Hún var miður sín yfir dauða drekans. Ekkert að spá í því sem ég og hinir nördarnir misstum vatnið yfir fyrir tveimur árum. Að Daenerys og fé­lagar hefðu ekki gert ráð fyrir Euron og Járn­flotanum?

Hvernig einn höfunda þáttanna, David Beni­off, hafði VOGAÐ SÉR að segja hrein­lega að Daenerys hefði „svona eigin­lega gleymt“ Járn­flotanum. Eitt­hvað sem er orðið að al­ræmdasta meme-i inter­netsins og minnis­varði um seríuna sem allir vilja gleyma og hafa tryggt það að enginn talar lengur um Game of Thrones.

„Þetta var svaka­legt,“ sagði kærastan mín við mig. Henni fannst þetta mjög eðli­leg næsta fram­vinda þátta­raðarinnar. Annað plot twist, á­fram­hald sögunnar. Eðli­lega. Ég gat ekki verið ó­sam­mála henni. Enda er þetta bara þáttur.

Jú jú, hlutirnir gerðust hraðar en serían var alveg jafn spennandi og áður. Þar sem ég sat í sófanum með ást­konunni gat ég ekki lengur varist þeirri hugsun...að eftir­væntingin fyrir seríunni fyrir tveimur árum hefði hugsan­lega gert mig...og okkur öll vit­stola.

Hér að neðan hefur svekktur aðdáandi búið til sérstakt myndband þar sem orð David eru spiluð aftur við vel valin atriði úr þáttunum:

Flókið sam­band við bálkinn

Að þessu sögðu er kannski á­gætt að ég beri blak af sjálfum mér og vit­firrtum til­finningum mínum í garð ein­hvers eins ó­merki­legs í stóra sam­henginu og Game of Thrones.

Ég nefni­lega hafði ekki kynnst öðru eins þegar ég var 16 ára gamall og las fyrstu bókina í A Song of Ice and Fire bóka­bálknum, þeirri sem hét ein­mitt Game of Thrones. Alinn upp í Harry Potter og LOTR heimum hélt ég ein­dregið að Ned Stark væri Harry Potter þessa heims.

Ég hélt með honum og skyldi allar hans á­kvarðanir, um að takast á við Cer­sei Lanni­ster og hennar kóna í höfuð­borginni með heiðar­leikann að vopni. Í­myndið ykkur á­fallið þegar höfuðið fékk að fjúka. Eða þegar Robb Stark, Ca­telyn og öllum hinum var slátrað í rauða brúð­kaupinu.

George RR. Martin á eftir að klára bækurnar. Mun líklegast aldrei gera það. En góðar eru þær og flóknari en þættirnir.
Mynd/Blackwells

16 ára gamall, með sög að vopni í vinnu­skólanum í Heið­mörk gekk Game of Thrones æðið meira að segja svo langt að þegar við hoppuðum út í Elliðar­ár­vatn til að stytta okkur stundir einn daginn, hoppaði ég með fé­laga mínum út í Elliða­vatn og við kölluðum að sjálf­sögðu tvö stykki „Win­ter is coming“ á undan.

Eftir að hafa ó­vart stokkið með gler­augun út í komst ég síðar að því að það væri þátta­röð byggð á bókunum í bí­gerð. Ekki bara ein­hver þátta­röð heldur HBO þátta­röð! Ég gladdist mikið og horfði í hverri einustu viku árið 2011 og næstu ár á eftir. Og viti menn, þættirnir voru jafn góðir og bækurnar! Twists and turns við sér­hvert horn, ó­væntir at­burðir alls­staðar.

Einn fé­lagi minn gekk meira að segja svo langt að segja þættina vera mína þætti. Enda var ég fyrstur til að benda öllum vinum mínum á þá. Eða svona...í minningunni alla­vega.

Þessa stiklu horfði undirritaður á aftur og aftur fyrir rúmum tíu árum síðan:

Að horfa á fimmtu, sjö­ttu, sjöundu og áttundu aftur

Hrað­spólum á­fram til ársins 2019. Eftir sjö ár af því að horfa á Game of Thrones á hverju ári, eftir að hafa fylgst með Jon Snow deyja í lok fimmtu seríu og lifna svo við í þeirri sjö­ttu, þá var loksins komið að þessu.

Eftir að allar kenningar í heiminum. Allar spurningarnar:

.....Verða Jon og Dany hamingju­söm til ei­lífðar­nóns? Mun Dany missa vitið? Í hvaða liði er Jaime? Hver vinnur þegar eld­dreki og ís­dreki spúa eldi hvor á annan? Nær Hundurinn að drepa Fjallið? Theon að bjarga Euron? Bjarga Yöru? Mun ein­hver sigra? Daenerys bræða járn­há­sætið? Hver er Azor Ahai? Af hverju vöknuðu hvít­genglarnir til lífsins? Hvernig verða þeir sigraðir?

....var þátturinn loksins sýndur. Á þremur þáttum tókst hópnum, þeim Daenerys, Jon Snow, Sönsu, Tyrion, Jaime og hinum að sigra hvít­genglana. Strax í þriðja þætti var orrustunni lokið og Arya drap nætur­konunginn.

„Hver er til­gangur Three Eyed Ra­ven?“ spurði ég til að mynda sjálfur í þriðja þætti af Krúnu­varpinu í kjöl­farið. Spurningarnar voru margar, en svörin voru tölu­vert færri. Gúggli maður spurninguna á ensku: „Hvað fór úr­skeiðis í Game of Thrones?“ hellast yfir mann 56 milljón niður­stöður.

Í fjórða þætti missti Daenerys dreka og Missandei, besta vin­kona hennar til margra ára og ást­kona her­foringja hennar, Grey Worm var drepin. Jon komst í milli­tíðinni að því að hann væri Aegon Targar­yen og hafnaði svo Dany, með þeim af­leiðingum að hún missti vitið. Brenndi svo Varys, sem sjálfur vildi Jon sem konung því að allt stefndi í fjölda­morð Daenerys í King's Landing.

Daenerys stóð við stóru orðin og myrti alla með eldi og blóði í borginni. Jon heim­sótti Tyrion í fanga­klefa og bjargaði svo landinu sínu með því að stinga Daenerys til bana.

Við að horfa á þetta í annað skiptið, upp­lifði ég seríuna öðru­vísi en í hið fyrra. Mér fannst til dæmis öll bar­áttan við hvít­genglana bara til­tölu­lega fín. Ástar­sam­band Dany og Jon virtist náttúru­legra að þessu sinni og það sem fór í taugarnar á mér í sam­ræðum per­sóna í fyrsta á­horfi þvældist ekki eins fyrir mér í seinna skiptið.

Ég sá mynstrið núna. Strax í fimmtu seríu. Þegar Geor­ge RR. Martin kvaddi hand­rits­höfunda þáttanna. Hlutirnir fara að gerast hraðar. Ef maður horfir á þetta í þessum rykk, venst maður því tölu­vert hraðar og áttunda sería er ekki sama sjokkið. Tyrion er allt í einu mættur til Daenerys, á núll einni.

Í næsta þætti orðinn að hennar helsta ráð­gjafa. Þetta venst. Þetta er á­gætt. Maður skilur, að þessa sögu­þræði er að finna í kjarna Geor­ge RR Martin. Mannsins sem getur ó­mögu­lega fengið sig til að klára bækurnar sínar. Það verður ekki sama sjokkið að horfa á áttundu seríu, þegar maður er ný­búinn að horfa á þá sjöundu. Þar sem per­sónur hrað­flytjast í­trekað þvert yfir Westeros.

Daenerys mætti örlögum sínum af hendi Jon Snow. Nýbúin að myrða alla íbúa Kings Landing.
Mynd/HBO

Eitraða að­dá­enda­menningin

Ég velti þessu mjög fyrir mér, þar sem ég sat í sófanum með minni allra bestu að horfa á síðustu seríuna. Hvernig bilaðs­leg að­dáun og á­horf síðustu ára, hafði gert það ó­mögu­legt fyrir þátta­stjórn­endur að gleðja mig. Star Wars að­dá­endur kannast við þetta. Brjálaðir að­dá­endur yfir Prequel myndunum. Brjálaðir að­dá­endur yfir Sequel myndunum.

Geor­ge RR Martin virðist reyndar sjálfur vera á þeirri skoðun að inter­netið hafi ein­mitt ýtt undir þessa sýn að­dá­enda. Eitrað and­rúms­loftið. „Inter­netið er eitrað á þann hátt sem að­dá­enda­menning og að­dá­endur mynda­sagna og vísinda­skáld­skapar var ekki í þá daga,“ hefur hann sagt. „Fólk var ó­sam­mála, en ekkert eins og geð­sýkin sem er á inter­netinu núna.“

Milljónir að­dá­enda skrifuðu ein­mitt undir undir­skriftar­lista þar sem þess var krafist að síðasta serían yrði endur­skrifuð „af hæfum hand­rits­höfundum.“ Bara nú um daginn sá ég meme þar sem að­dá­endur minntust þess að tvö ár væru frá því að serían hefði klárast. Þeir hefðu enn ekki jafnað sig. Um­ræðan lifir.

Aðdáendur hafa ekki enn jafnað sig vegna áttundu seríunnar og munu líklegast aldrei gera það.
Facebook/Game of Thrones Shameposting

Ég skil það. Mér fannst ég eiga það mikið í Game of Thrones, að mér fannst til­finningar mínar að öllu leyti og 100 prósent rétt­lætan­legar. Þetta var minn þáttur. Mitt efni. Rétt eins og Star Wars þegar JJ Abrams og Rian John­son fengu lausan tauminn. Hvað voru þessir D og D gaurar að flýta sér? Og eyði­leggja upp­á­halds þáttinn minn?

En Game of Thrones er bara þáttur. Ekki minn þáttur. Bara eitt­hvað sjón­varps­efni. Hverjum er ekki sama? Það tók mig tvö ár að jafna mig og skilja það. Svona næstum. Því þrátt fyrir þetta lifir Game of Thrones geð­veikin enn innra með mér. Lengst inni.

Hver á sér betri sögu en Bran? spurði Tyrion. Ég gæti nefnt Jon Snow, raunverulegan erfingja krúnunnar.
Mynd/HBO

Mér finnst senan þar sem Bran var gerður að konungi enn hrylli­leg. Senan þar sem Grey Worm, sem í síðustu senu hafði myrt sak­lausa her­fanga, hafði úr­slita­völd yfir því að Jon Snow, rétt­mætur erfingi krúnunnar, væri gerður út­lægur. Fyrir utan það at­riði hins­vegar.....var áttunda serían bara fín.

Kannski verður Hou­se of Dragon það bara líka.

Þau Emma D'Arcy og Matt Smith í hlutverkum sínum sem Daemon Targaryen og Rhaenerya Targaryen í væntanlegri þáttaröð House of Dragons.
Mynd/HBO