Á sýningunni Eftir stórhríðina í Ásmundarsafni er verkum tveggja myndhöggvara teflt saman, annars vegar Ásmundar Sveinssonar, eins þekktasta listamanns þjóðarinnar, og hins vegar Unndórs Egils Jónssonar, fulltrúa nýrrar kynslóðar myndhöggvara.

Spurður um hvort hann hafi verið aðdáandi Ásmundar segir Unndór: „Já, ég hef verið það og sérstaklega eins og frumkvöðlastarfsins. Þótt ég hafi aldrei kannski lagst yfir myndlistina hans mikið áður. Ég er mjög hrifinn af húsunum sem hann byggði og líka bara hvernig hann byggir þau, þessi kraftur og orka.“

Hvernig fannst þér að vera í samtali við þennan risa höggmyndalistarinnar?

„Það var svolítið ógnvekjandi til að byrja með. Ég hafði kannski aldrei pælt í mér og minni myndlist í samhengi við hann, ég var einhvern veginn ekkert að hugsa um þetta þegar ég var spurður hvort ég væri til í það. En smátt og smátt þegar ég fór að skoða húsið og hvað það var sem mig langaði til að gera og hans verk, þá fór maður að sjá tengingar.“

Unndór leitaði innblásturs í formþekkingu húsgagnasmíðar á árunum 1940-60.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Formþekking og handverk

Verk Unndórs á sýningunni eru öll unnin úr íslensku birki og segir hann sameiginlegan áhuga sinn og Ásmundar á íslenskum viði hafa verið það sem kveikti upphaflega tengingar þeirra á milli.

„En svo fór ég líka að sjá tengingar í formunum í verkum hans Ásmundar þar sem hann er að blanda saman manneskjunni, umhverfinu og athöfnum mannsins, og vefja þeim saman í eitt form. Mér fannst það tengjast svolítið þessum verkum og því sem ég hef verið að hugsa sem kemur kannski helst fram í húsgögnunum,“ segir hann.

Á Eftir stórhríðinni sýnir Unndór meðal annars nokkur húsgögn sem hann hefur unnið úr birki, bekk og tímaritastand með innbyggðum lampa.

„Ég hef verið að skoða mikið húsgagnahönnun frá svona 1940–60, sem er akkúrat sama tímabil og verkin hans Ásmundar eru frá. Það sem ég er að leita að í þessum húsgögnum er þessi formþekking sem er svo sterk í húsgögnum frá þessum tíma. Sem húsgagnasmiður þá er þetta mjög áhugavert tímabil, því þarna var komin mikil hönnun en enn þá verið að halda í handverkið. Þetta er aðeins áður en allt verður vélvætt. Það eru flóknar viðarsamsetningar í húsgögnunum og mér finnst formin blandast vel saman við þessi lífrænu form.“

Verkið Hefilspónadrífa samanstendur af færibandi sem teygir sig upp eftir manngerðu tré og flytur hefilspæni upp og niður.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Eilíf hringrás hefilspóna

Verkið Hefilspónadrífa samanstendur af færibandi sem teygir sig upp eftir manngerðu tré og flytur hefilspæni upp og lætur þá falla aftur niður í eilífri hringrás.

„Hugmyndin er kannski að reyna að endurgera snjókomu og þá sérstaklega svona snjókomu þar sem stór og þykk snjókorn svífa fallega niður til jarðar. Þetta er bara hringrás og það eru alltaf sömu hefilspænirnir sem koma niður, þeir bara ganga hring eftir hring. Hugmyndin kviknaði á vinnustofu minni þegar ég var að hefla spýtu og sá spænina falla niður af borðinu. Þá minnti þetta mig á þessa tegund snjókomu og mig langaði til að finna leið til að endurgera hana til að gera það eilíft og varðveita það í listaverki,“ segir Unndór.

Verk Unndórs á sýningunni eru einkar fjölbreytt en þó öll unnin úr íslensku birki.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Birki talið ónothæft

Spurður um hvað það sé sem heilli hann við birki sem efnivið segir Unndór:

„Það fyrsta sem heillaði mig við þessa trjátegund er að hún var talin ónothæf sem efniviður af því hún væri svo kræklótt og það væri svo erfitt að smíða úr henni. Það byrjaði fyrir nokkrum árum að mig langaði að búa til verk þar sem gallarnir við efnið yrðu að kosti. Það er kannski það sem maður getur helst séð í húsgögnunum, sérstaklega í bekknum þar sem einn fóturinn svignar upp í bakið. Svo líka af því mér finnst birkið hafa svolítið villt eðli sem ég hef áhuga á. Mér finnst áhugavert að tefla saman þessu villta við mekaník, verkfræðileg og geómetrísk form.“

Varst þú með í að velja verk Ásmundar á sýninguna?

„Já, ég valdi þau í sameiningu með sýningarstjórunum. Umfjöllunarefni verka hans eru allt frá tröllum yfir í rafmagnið og hljóðmúrinn, hluti sem koma fram á 20. öldinni. Umfjöllunarefnin í hans verkum eru náttúrlega svolítið víð en þau einhvern veginn tengjast saman við verkin mín, þetta er eitthvað sem ég er líka að velta fyrir mér.“