Sænska poppstjarnan Zara Larsson auk breska tónlistarmannsins James Bay eru væntanleg til Íslands í ágúst og munu troða upp ásamt tónlistarmanninum Ed Sheeran á Laugardalsvelli í sumar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu Live en líkt og alþjóð veit er þegar uppselt á tónleikana þann 10. ágúst næstkomandi en það er óþarfi að örvænta, því enn er hægt að tryggja sér miða á aukatónleikana sem verða haldnir þann 11. ágúst næstkomandi.

Eins og flestir vita verða umræddir tónleikar þeir stærstu í Íslandssögunni en þrjátíu þúsund miðar voru og eru í boði á aðaltónleikana og aukatónleikana og ljóst að það verður dúndrandi stemning.