Allar hefðbundnu jólaskreytingarnar í Reykjavík eru komnar upp en margt nýtt bætist við á næstu dögum til að gleðja íbúa á tímum heimsfaraldurs. Alls 20 kílómetrar af seríum með 200 þúsund perum lýsa upp borgina á aðventunni sem er þriðjungs aukning frá árinu 2018.

Bláa tréð við Fógetagarðinn verður með 600 metra af seríum eða um sex þúsund ljós. Oslóartréð verður þakið 450 metrum af seríum eða fjögur þúsund og fimm hundruð ljós en það verður tendrað á Austurvelli fyrsta sunnudag í aðventu eins og vanalega.

Jólamarkaður verður á Hjartatorgi, Nova-svellið verður á Ingólfstorgið og annar jólamarkaður um teygja sig yfir í Austurstræti. Einnig má búast við ýmsum óvæntum viðburðum sem skjóta upp kollinum hér og þar.

Jólakötturinn er kominn á sinn stað á Lækjartorgi, jólavættirnar birtast á húsveggjum í desember. „Jólaþak" verður sett á Austurstræti en þar verða seríur strengdar yfir götuna í anda gulu veifanna sem skreyttu götuna í sumar. Önnur nýjung eru ljóskúlur sem prýða Laugaveg og Hljómskálagarð.

Jólakötturinn ógurlegi á Lækjartorgi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Trjágöng í Laugardal verða lýst upp og einnig verða lýst upp valin undirgöng og brýr í úthverfum að sögn Reykjavíkurborgar er ekki ólíklegt að jólavættur skjóti líka upp kollinum í einhverju hverfi borgarinnar.

Elliðaárdalur verður lýstur upp í nágrenni við Rafstöðvarveg í samvinnu við ON, sem er líka nýjung.

Nýfallinn snjór í Elliðaárdal veturinn 2017.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason
Jólasveinar birtast á veggjum í miðbæ Reykjavíkur.
Fréttablaðið/Valli