Kærleikskúla ársins 2022 var afhjúpuð í gær við hátíðlega athöfn í Hafnarhúsinu og stendur sölutímabil hennar til 23. desember. Listamaður kærleikskúlunnar í ár er þýska listakonan Karin Sander en verk hennar heitir Kúla með stroku. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur staðið að Kærleikskúlunni frá árinu 2003 og sú í ár er tuttugasta útgáfa kúlunnar.
Karin hefur verið viðloðandi íslenskt listalíf síðan snemma á tíunda áratugnum og er í dag einn fremsti og afkastamesti listamaður sinnar kynslóðar. Verk hennar hafa verið sýnd um heim allan og finnast í opinberum söfnum og safneignum víða um lönd en hún verður fulltrúi Sviss á átjánda alþjóðlega arkitektúrtvíæringnum í Feneyjum á komandi ári.
Auk Kærleikskúlunnar í ár hefur listamaðurinn Karin Sander einnig útbúið og gefið Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra sérstakt verk sem kemur út í aðeins tuttugu eintökum í tilefni af 20 ára útgáfuári Kærleikskúlunnar sem verður kynnt við opinn viðburð í i8 næsta föstudag, 9. desember, klukkan 17.
Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna, með því að efla starfsemi Reykjadals í Mosfellsdal sem Styrktarfélagið á og rekur ásamt Æfingastöðinni í Reykjavík. Allur ágóði af sölu kúlunnar rennur óskiptur til starfsemi sumarbúðanna í Reykjadal.
