Höfuðbúnaðurinn sem Gucci selur fangaði athygli gagnrýnenda þegar netverslun Nordstrom auglýsti höfuðbúnaðinn frá Gucci á 790 evrur eða rúmar 100.000 krónur. Í kjölfarið tístu samtök sikha á Twitter að túrbaninn væri ekki bara fylgihlutur, heldur heilagt trúartákn.

Nordstrom hefur beðist afsökunar opinberlega á Twitter, og höfuðbúnaðurinn merktur sem uppseldur á síðu þeirra. Nafn vörunnar sem var áður „Indy Full Turban“ eða indverskur túrban er nú „Full Head Wrap“.

Þrýst er á Gucci að tískumerkið sendi frá sér afsökunarbeiðni, en ekkert hefur borið á svörum.

Á meðan Gucci er ekki eina tískumerkið sem selur túrbana og Nordstrom ekki eina fatabúðin, þá útskýrir Sukhjeevan Singh, talsmaður Sikha-ráðsins í Bretlandi, að ástæða þess að Gucci hafi vakið meiri reiði en önnur merki sé vegna þess hve mikið höfuðbúnaðurinn sem Gucci selur líkist túrbönum sem sikhar nota hversdags.

Fyrirsætan Adwoa Aboah með túrban á höfðinu. Nordic photos/Getty

Singh segir að þetta sé verulega móðgandi og mikil vanvirðing því að túrbaninn sé heiðurstákn í trúarbrögðum sikha. Gucci-túrbaninn sé eins og skopstæling. Singh staðhæfir jafnframt að trúarbrögðin séu mjög opin og vanalega hafi túlkun einstaklinga og tískumerkja, sem standa utan trúarbragðanna, á túrbönum ekki vakið mikla reiði og gagnrýni. Það sé vegna þess að yfirleitt hefur höfuðbúnaðurinn þá ekki verið nákvæmlega eins, heldur hafi efninu verið vafið öðruvísi um höfuðið.

Innleiðing túrbansins í heim lúxustískumerkja, hófst árið 1955 þegar Christian Dior sýndi túrban í fatalínu sinni. Á næstu áratugum mátti sjá tískufyrirmyndir á borð við Margréti Bretaprinsessu, Elizabeth Taylor og Joan Collins með túrban, þrátt fyrir að það væri ekki fyrr en árið 1989 sem sikhar máttu samkvæmt lögum bera túrban á vinnustöðum í Bretlandi.

Á seinni árum hafa stjörnurnar Rihanna, Sarah Jessica Parker og Kate Moss til dæmis vakið athygli fyrir að bera túrban. Í nóvember 2017 bar fyrirsætan Adwoa Aboah túrban eftir hönnuðinn Marc Jacobs, á forsíðu British Vogue.

Singh vonar og er bjartsýnn á að tískumerkið hafi ekki ætlað sér að móðga sikha, og vonast eftir afsökunarbeiðni, enda hafi Gucci áður sagt að merkið ætli að taka tillit til menningareinkenna ólíkra þjóða í framtíðinni. „Ég vona að þau endurtaki þau orð og að þau nái líka yfir virðingu gagnvart mismunandi trúarbrögðum,“ segir Singh.