Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar sýnir verk sín á sýningunni Smásala, Retail, í Harbinger á Freyjugötu. Á sýningunni eru skúlptúrar, veggverk og textaverk. Þar vinnur Geirþrúður með fagurfræði verslunargeirans og skoðar gildi sem felast í framleiðslufyrirkomulagi nútímasamfélags í víðara samhengi.

„Ein af hugleiðingum mínum er verslunarmenning sem hluti af stærra samhengi, þar sem ég velti fyrir mér framleiðslu og efnahagslífinu. Smásala er einn angi þess,“ segir Geirþrúður.

Spurð hvort hún sé að gagnrýna neysluhyggju segir hún: „Ekki beinlínis, maður verður að fá hluti einhvers staðar frá. Mér finnst til dæmis ekki vera ástæða til að gagnrýna smásölu sem fer fram í litlum búðum, sem eru venjulega mjög fallegar. Framleiðsluferlið er hins vegar orðið að furðulegu fyrirbæri. Það breyttist mjög á níunda áratugnum, þá kom skeið fjármagnskapítalisma þar sem fjármagnsfyrirtæki fara að taka til sín stærri hluta af heildarframleiðslunni. Það breytir framleiðsluferlinu, farið að framleiða í öðrum löndum og efnisnotkun verður öðruvísi, plastnotkun eykst, til dæmis. Það er beinlínis vegna þess að það þarf að lækka kostnaðinn við framleiðslu. Maður fer að sjá minna af handgerðum hlutum sem gerðir eru af alúð.“

Skúlptúrarnir á sýningunni eru innblásnir af hlutum sem seldir eru í búðum og búðarútstillingum. „Ég teikna í þrívídd og læt smiði síðan smíða og saga og til verða verk með iðnaðarútlit,“ segir Geirþrúður.

Elsta kvörtunarbréfið

Eitt verk á sýningunni er gert úr plexigleri, áli og plastlagðri spónaplötu. Í plexiglerinu er afar áhugaverð mynd. „Þetta er mynd af töflu frá tímum Babýloníumanna. Þetta er elsta kvörtunarbréf viðskiptavinar sem fundist hefur, frá árinu u.þ.b. 1750 fyrir Krist. Það er í alveg sama tóni og hjá óánægðum viðskiptavini í dag. Þessi viðskiptavinur er greinilega mjög reiður.“

Heillandi andrúmsloft

Verkin á sýningunni eru áberandi stílhrein. „Ég legg mikið upp úr því í þessu tilviki. Verkin á þessari sýningu eru mín túlkun á stíl níunda áratugarins, en þá var ríkjandi andrúmsloft sem ég heillaðist af þegar ég var að vinna að hugmyndunum sem liggja að baki verkunum,“ segir Geirþrúður.

Sýningin stendur til 30. maí, opið er frá 14-17 fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga.