Tulipop heimurinn er búinn að vera til í rúm níu ár og hefur eignast stóran hóp aðdáenda á öllum aldri víða um heim, sem margir hverjir hafa verið að bíða lengi eftir Tulipop-bók sem fengist bæði á ensku og íslensku,“ segir Signý Kolbeinsdóttir sem skrifaði og myndskreytti Leyniskóginn, fyrstu barnabókina í flokknum Sögur frá Tulipop.

Signý, sem er annar stofnenda hönnunarfyrirtækisins Tulipop, segir að í ljósi vinsælda Tulipop víða um heim hafi þótt tilvalið að láta reyna á fjármögnun útgáfunnar á Kickstarter. „Og gefa dyggum aðdáendum kost á að tryggja sér eintak fyrstir allra og fá um leið alls konar skemmtilegan Tulipop-varning,“ segir Signý sem meðal annars gerði sérstakar Tulipop-teikningar fyrir þá rausnarlegustu.

Alls konar aðdáendur

Óhætt er að segja að fjármögnunin hafi gengið vonum framar þar sem þeir 10.000 dollarar sem lagt var upp með söfnuðust hratt og örugglega og þar með náðist takmarkið um að koma bókinni út fyrir jólin.

Signý segir um helming upphæðarinnar hafa komið frá útlöndum og ánægjulegt hafi verið að sjá hversu fjölbreyttur hópurinn var sem vildi leggja sitt af mörkum og hversu margir þekktu greinilega vel til Tulipop fyrir.

„En síðan var einnig nokkur fjöldi fólks sem tók þátt eftir að hafa uppgötvað Tulipop í gegnum herferðina á Kickstarter, enda var eitt markmiðið líka að kynna Tulipop fyrir fleira fólki um allan heim.“

Litið um öxl

Þegar loksins var komið að barnabókaútgáfunni, eftir tæplega tíu farsæl ár, ákvað Signý að hverfa aftur til upprunans þannig að í Leyniskóginum fá lesendur að slást í för með sveppasystkinunum Gló og Búa þegar þau hitta þriðju aðalpersónu Tulipop, skógarskrímslið Fredda, í fyrsta sinn.

Signý heldur sig einnig við meginþemu Tulipop frá upphafi; náttúruna, vináttuna og fjölbreytileikann. „Tulipoppararnir eru allir innblásnir af fjölskyldumeðlimum mínum og vinum,“ segir Signý um persónurnar. „Mér finnst mjög mikilvægt að krakkar lesi um persónur sem þau geti tengt við og eru ekki fullkomnar. Öll höfum við okkar bresti en erum flest góð inn við beinið og þannig eru persónurnar í Tulipop.“

Þetta er fyrsta bókin í bókaseríunni Sögur frá Tulipop vegna þess að mig langar að gera fleiri bækur,“ segir Signý sem telur að þau hjá Tulipop hafi fundið rétta formið utan um boðskapinn sem felst í ævintýrum Tulipopparana. „Okkur fannst þessi stærð og lengd fullkomin fyrir krakka á aldrinum fjögurra til átta ára,“ segir Signý.

„Ég hef alltaf haft það markmið að búa til heim og persónur sem höfða til krakka á öllum aldri og við lögðum því áherslu á að bókin væri líka skemmtileg aflestrar fyrir foreldrana og eldri systkini.“

Eyja elds og sveppa

Tulipop-eyjan sjálf er um margt mjög lík Íslandi „Fyrir utan kannski alla sveppina sem ég held að ég hafi tekið með mér frá Þýskalandi þar sem ég ólst upp til níu ára aldurs.

Ég áttaði mig ekkert á því í fyrstu hvað náttúran spilaði stórt hlutverk í Tulipop-heiminum þar sem við Íslendingar höfum tekið henni sem sjálfsögðum hlut.

Á Tulipop-eyjunni eru eldfjöll, heitir hverir og ísjakar. Eyjan er síbreytileg og lifandi, næstum ein af persónunum og hugmyndin er að segja sögur þar sem náttúran skipar stórt hlutverk. Að miðla þannig með ævintýralegum sögum jákvæðum skilaboðum til krakka og fullorðinna um að bera virðingu fyrir landinu og náttúrunni.“