Bandaríski sjónvarpsþátturinn Good Morning America á sjónvarpsstöðunni ABC fjallaði í gær um íslenska matvörufyrirtækið GOOD GOOD og vörur þess í morgunþætti sínum.

Eftir umfjöllunina varð mikil aukning í sölu á vörum fyrirtækisins, þá sérstaklega sultum, súkkulaðismjöri, ketóbari, sírópi og hnetusmjöri og seldi GOOD GOOD fyrir samtals 152 þúsund Bandaríkjadali, eða rúmar 22 milljónir króna á aðeins nokkrum klukkustundum.

„Við vitum að við höfum verið að sækja í okkur veðrið í USA hvað varðar GOOD GOOD, enda 15 vinsælasta sultumerkið í Bandaríkjunum eins og er. Engu að síður kom þessi gífurlegi áhugi vegna Good Morning America okkur þægilega óvart verð ég að viðurkenna“ segir Garðar Stefánsson, forstjóri GOOD GOOD. Hann segir hráefnin ekki ódýr en 60 prósent af vörum þeirra innihalda ber og náttúruleg sætuefni.

GOOD GOOD í Good morning America

GOOD GOOD er íslenskt matvælafyrirtæki sem var stofnað 2015. Það sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á matvælum án viðbætts sykurs og með náttúrulegum innihaldsefnum. Vöruframboðið samanstendur meðal annars af sultum, hnetu- og súkkulaðismyrjum, sætuefnum, stevíu-dropum, sýrópi, bökunarvörum, hnetusmjöri og keto-börum. Sultulína GOOD GOOD er mest ört vaxandi sultumerkið í Bandaríkjunum.

Vörur fyrirtækisins fást í dag í rúmlega tíu þúsund verslunum í 36 löndum, þar af 3.500 Walmart verslunum. Alls starfa sextán starfsmenn hjá GOOD GOOD; 11 í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík, fjórir í Bandaríkjunum og einn í Bretland. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 af Agnari Lemacks, Garðari Stefánssyni og Jóhanni Inga Kristjánssyni.

Hægt er að nálgast morgunþátt Good Morning America hér frá mínútu 3.30.