Arna skreytir heimilið hátt og lágt, sker út grasker með fjölskyldunni, velur búningaþema ár hvert og til að toppa hrekkjavökuna heldur Arna vanalega heljarinnar hrekkjavökumatarboð þar sem allar veitingarnar eru tengdar hrekkjavökunni á einn eða annan hátt.

Kökuskreytingar urðu að atvinnu úti í Belgíu

Undanfarin tíu ár hefur Arna unnið við kökuskreytingar en það byrjaði sem áhugamál þegar hún bjó í Belgíu en varð svo að fullri atvinnu meðan hún bjó þar. Hún flutti heim til Íslands fyrir liðlega fjórum árum og hefur haldið áfram að dunda sér við kökuskreytingar sem eru hinar fjölbreyttustu. „Ég hef aðallega verið að baka og skreyta fyrir vini og vandamenn hér heima.

Ég held líka úti fésbókarsíðunni Kökukræsingar Örnu þar sem hægt er að fylgjast með kökuskreytingunum mínum sem eru mín ástríða.“

Geggjuð saltkaramellukaka í hrekkjavökubúningi. Ákaflega fallega græn.

Elskar hrekkjavökuna

„Ég elska hrekkjavökuna og byrjaði sú ástríða þegar ég bjó í Belgíu, en Belgar eru kaþólskir og upphaflega má rekja hrekkjavökuna til Íra og þeirra kaþólsku trúar. Bandaríkjamenn eru hins vegar snillingar í markaðssetningu og náðu að markaðssetja hrekkjavökuna og þar af leiðandi halda mjög margir að þetta sé bandarískur siður.“

Það eru aðallega litirnir sem heilla Örnu við hrekkjavökuna. „Haustlitirnir á þessum tíma á meginlandinu eru stórkostlegir. Allt rautt, gult og appelsínugult. Það er einstaklega gaman að skera út grasker og myrkrið og kertin setja dulúðlegan svip á þennan tíma,“ segir Arna og er þegar byrjuð að undirbúa hrekkjavökuna af fullum krafti heima fyrir.

Í tilefni af hrekkjavökunni sem fram undan er laugardaginn 31. október skellti Arna í eina saltkaramelluköku fyrir okkur, sem hún skreytti á mjög einfaldan hátt í hrekkjavökubúning.