Mér finnst mjög sérstakt að vera að frumsýna tvær seríur á sama tíma og þetta fellur mjög sjaldan svona þar sem það tekur oft svo mikinn tíma að þróa eitt svona verkefni og koma því alla leið,“ segir Arnór Pálmi Arnarson sem er með tvö heit járn í sjónvarpseldinum, sem leikstjóri Ráðherrans annars vegar og Eurogarðsins hins vegar.

Arnór bendir á að hann hafi verið búinn með Ráðherrann, sem hann leikstýrði ásamt Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, áður en Eurogarðurinn kom upp, en tökum á þeim þáttum lauk í júní. „Það er bara mjög gaman að þetta skuli hittast svona á og svo er líka bara eitthvað við það að vera að leggja mín lóð á vogarskálarnar til þess að fólk geti dreift huganum í þessu ömurlega ástandi sem er í gangi,“ segir leikstjórinn, sem ók blint í Eurogarðinn þegar hann var í leit að sjálfum sér.

Jón Gnarr og Arnór Pálmi við tökur á Eurogarðinum í Húsdýragarðinum.

Ráðherramanía í húsbíl

„Ég keypti mér húsbíl þegar ég var nýbúinn að skjóta Ráðherrann. Af hverju var ég að kaupa mér húsbíl? Það er fáránlegt,“ segir Arnór sem velti fyrir sér hvort hann væri í maníu. Kannski dálítið eins og forsætisráðherrann Benedikt, sem þjáist í þáttunum af geðhvörfum.

„Ég ákvað bara að daginn sem við kláruðum myndi ég bara keyra í mánuð um Ísland. Heimsækja fólk út um allt land og fara bara í einhverja svona skrítna ferð að finna mig, sem ég fann náttúrlega alls ekki.“

Hann minnist þess að hann hafi í þeirri ferð verið að dæla bensíni á bílinn þegar kallið úr Eurogarðinum kom. Símtal, þar sem hann var beðinn um að setja saman hóp og gera leikna gamanþáttaröð sem yrði tilbúin haustið 2020.

„Spurningin var þá bara, hvað ætlum við að gera? Mér fannst það bara fínt að eggið kom langt á undan hænunni og þegar við byrjuðum vorum við ekki með neitt. Ég var ekki með neina konkret hugmynd. Ég fór bara í svörtu bókina mína og hvað ég hef verið að pæla svona í gegnum tíðina,“ segir Arnór sem vissi bara að hann væri að fara að setja saman hóp og að hann langaði „að gera seríu sem gæti gerst einhvers staðar þar sem við gætum tekið inn hvern sem er úr þjóðfélaginu, hvers konar karaktera eða fígúrur sem við vildum. Það var svona útgangspunkturinn.“

Garður allra tegunda

Arnór segir að í leitinni að sögusviði sem hentaði öllum hugsanlegum persónum hafi Húsdýragarðurinn fljótlega komið til tals. „Af því að það þekkja hann allir og við höfum öll farið þangað. Það hafa allir verið þarna og það hentaði okkur rosalega vel í skrifunum. Þannig að það var ákveðið og svo setti ég saman þennan hóp og það var fínt bara og svo fórum við í karaktervinnu,“ segir Arnór, um þau Audda Blö, Steinda, Önnu Svövu og Dóra DNA, sem öll leika í þáttunum auk þess að skrifa með honum handritið.

„Við byrjuðum með svo rosalega tóman striga. Það var mjög skemmtilegt og svo bara skrifaði þetta sig sjálft þegar við vorum komin með karakterana og einhvern svona smá boga,“ segir Arnór og talar um „fjölskyldufílíng í fallegum garði“, þegar hann lýsir áköfum en sérlega skemmtilegum tökudögum í Laugardalnum.

Glassriver framleiddi Eurogarðinn fyrir Stöð 2 og þótt þátturinn sé kominn í loftið er Arnór enn með í það minnsta annan fótinn inni á gafli hjá framleiðslufyrirtækinu og ýmsar pælingar í gangi.

„Ég er svo bara kominn í að þróa næstu verkefni og það er svona allavegana og fólk er byrjað að pæla í hvað ætli þessir vitleysingar í þessum Húsdýragarði myndu gera næst,“ segir Arnór og bætir við að það sé síður en svo útilokað að eitthvað fleira muni koma frá Eurogarðsgenginu.

Leikstjórinn á hælum Ólafs Darra í hlutverki forsætisráðherrans Benedikts.

Drama og kómedía með hjarta

„Ráðherrann er þessi dramatíska, stóra sería á meðan Eurogarðurinn er kómedía en samt með miklu hjarta. Þarna eru sambönd fólks og það eru sögur og drama þarna undir niðri, en þetta er svo allt öðruvísi og svo ólík verkefni,“ segir leikstjórinn sem þarf stundum að svara því um hvort verkefnið honum þyki vænna. „Það er erfitt en þykir manni ekki alltaf vænst um yngsta barnið sitt?“

Leikstjórinn hefur þurft að svara fleiri spurningum undanfarið. „Fólk hefur spurt mig hvort Ráðherrann sé gamansería. Ég skil það ekki, vegna þess að ég horfi bara á þetta sem dramatíska harmsögu af veikum manni í ómögulegri valdastöðu, sem er að fatta það á eftir fólkinu í kringum sig að hann sé veikur.“

Notalega fastir liðir

Streymisveitur með alla sína ofgnótt sjónvarpsefnis með tilheyrandi hámglápi hafa gjörbreytt neysluhegðun sjónvarpsaðdáenda, en Arnór kann því notalega vel að fólk verði að gjöra svo vel að bíða í viku á milli þátta í bæði Ráðherranum og Eurogarðinum.

„Línuleg dagskrá er bara svo kósí og íslenskt fyrirbæri,“ segir Arnór og bendir á að með þessum föstu og fornu skorðum verði áhorf á þætti sem þessa einhvern veginn miklu meira sameiginleg upplifun. „Allir að tala um þáttinn daginn eftir á internetinu og eitthvað.“

Þá skemmtir Arnór sér jafnframt konunglega við að fylgjast með umræðum og gagnrýni á þættina í rauntíma á Twitter og Facebook, á meðan þeir eru í útsendingu á sunnudagskvöldum.

Tekur mark á góðu sem slæmu

„Ég les þetta allt saman. Ég alveg dýrka það vegna þess að maður hugsar svo oft út í að fólk sem er í sviðslistum, tónlistarmenn eða leikarar, fá einhver tafarlaus viðbrögð, sem er eitthvað sem maður fær svo sjaldan. Þannig að mér finnst geggjað að hafa bara þáttinn í gangi í sjónvarpinu og svo er ég bara á Twitter og Facebook að fylgjast með hverju fólk er að taka eftir og hvað það er að segja, gott eða slæmt.“

Arnór bætir við að hann hafi ekki síður gaman af því þegar hann sér að áhorfendur sjá hlutina einhvern veginn allt öðruvísi en höfundarnir sáu þá fyrir sér. „Mér finnst það svo geggjað,“ segir Arnór, alveg ósmeykur við hinn, á stundum, mjög svo óvægna öskurkór virkra á samfélagsmiðlum.

„Þegar ég gerði mitt fyrsta skaup var fólk búið að segja mér að fara ekki á miðlana. Slökkva bara á öllu vegna þess að þetta væri komið úr mínum höndum, en ég alveg dýrka þetta og ég virði neikvæða gagnrýni og viðbrögð alveg jafn mikið og jákvæð. Mér finnst alveg jafn gaman að lesa það,“ segir Arnór og bætir við að vitaskuld vonist hann alltaf til þess að áhorfendur séu sáttir.

Þverpólitískur velvilji

Fjórði þáttur Ráðherrans af átta verður sýndur á sunnudaginn þannig að lokatölur verða ekki teknar saman í bili, en hins vegar er nokkuð ljóst að þættirnir fengu strax í upphafi nokkuð þverpólitískan stuðning úr pólitíkinni sem þeir hverfast um.

„Við fundum fyrir svo miklum velvilja frá öllum flokkum og starfsfólki við undirbúning á Ráðherranum,“ segir Arnór og bendir á að þau hafi fengið að taka talsvert upp á göngum þinghússins en slíkt þyki síður en svo sjálfsagt.

„Það var eðlilega ekki hægt að skjóta í forsætisráðuneytinu, inni í stjórnarráðshúsinu, en við fengum að fara og skoða það. Svo fór ráðuneytisstýran með okkur, bara bankaði, inn til Katrínar og þar var hún í símanum,“ segir Arnór og lýsir því hvernig Katrín Jakobsdóttir hafi þá kvatt Bjarna, væntanlega Benediktsson, með þeim orðum að hún þyrfti að fá að hringja í hann á eftir vegna þess að hún var að fá gesti.

Sófalaus forsætisráðherra

„Við sátum svo bara með henni og spurðum hana út í hitt og þetta. Ekki um pólitík heldur bara út í daglegt líf hennar. Bara þetta hversdagslega. Hvað gerirðu hérna? Hvar gengurðu inn og hvernig er bílstjórinn þinn? Eruð þið vinir? og allt þetta sem mér fannst mikilvægt að reyna að ná,“ segir Arnór, sem einnig spurði Katrínu hvort hún legði sig einhvern tímann í ráðuneytinu.

Svarið við þeirri spurningu var nokkuð óvænt, þar sem Katrín svaraði neitandi en upplýsti síðan að hún hefði lagt sig á gólfinu í tíu mínútur um daginn. „Hún sagðist bara hafa verið svolítið þreytt eitthvað og sagðist alveg vera til í að hafa sófa þarna og spurði svo ráðuneytisstýruna hvort hún gæti fengið sófa.“

Hvort sú varð raunin fylgir ekki sögunni, en Arnór heyrði þó að Bryndís Hlöðversdóttir tók vel í þessa ósk Katrínar.

Arnór segir aðspurður að í svona tilfellum muni um auðveldan íslenskan aðgang að fólki í æðstu stöðum. „Já, ímyndaðu þér. Heldurðu að House of Cards hafi bara einhvern veginn farið og hitt Obama og bara „hey!“ Mér fannst það rosa heimilislegt að Katrín tók bara á móti okkur eins og ekkert væri sjálfsagðara.“