Donald Trump, Banda­ríkja­for­seti, er ekki parsáttur við her­toga­hjónin Harry og Meg­han, í kjöl­far mynd­bands þeirra þar sem þau hvöttu Banda­ríkja­menn til að kjósa. Á blaða­manna­fundi í Hvíta húsinu í gær sagðist hann ekki vera að­dáandi þeirra.

Líkt og fram hefur komið hafa her­toga­hjónin öðlast tölu­vert frelsi í kjöl­far þess að þau sögðu skilið við bresku konungs­fjöl­skylduna í janúar. Harry Breta­prins hefur hingað til ekki mátt tjá sig með beinum hætti um stjórn­mál.

Í á­varpi sínu til banda­rísku þjóðarinnar hvöttu hjónin banda­rísku þjóðina til þess að hafna hatur­s­orð­ræðu og fals­fréttum. Sagði Meg­han að um væri að ræða mikil­vægustu kosningar á sínu ævi­skeiði. Í frétt Sky um málið segir að hjónin hafi svo gott sem opin­ber­lega lýst yfir stðningi við Joe Biden, for­seta­fram­bjóðanda Demó­krata með mynd­bandinu.

Á blaða­manna­fundinum í gær var Trump spurður út í mynd­band þeirra hjóna. „Ég er ekki að­dáandi hennar,“ sagði for­setinn. „Ég óska Harry bara góðs gengis, hann mun þurfa á því að halda.“