Rúmlega sextíu ára gömul klippa úr sjónvarpsþáttunum Trackdown hefur hlotið mikla dreifingu á internetinu að undanförnu en efnisviður umrædds þáttar í seríunni er talinn endurspegla raunveruleika dagsins í bandarískum stjórnmálum með lygilegum hætti. 

Um er að ræða þætti sem gerast í villta vestrinu en í umræddum þætti, frá árinu 1958, hverfist söguþráðurinn um svikahrapp að nafni Walter Trump sem reynir að sannfæra bæjarbúa smábæjar um að þeir þurfi að byggja vegg til þess að verjast „enda alheimsins.“ 

Allt kemur þó fyrir ekki og er lögreglumaðurinn Hoby Gilman haldinn efasemdum um ágæti umrædds Trump sem þó hótar því að sækja hann til saka hætti hann ekki að áreita sig, þar til hann handtekur Trump fyrir lygar sínar.

Klippan komst fyrst í dreifingu árið 2016 en hefur hlotið enn meiri athygli um þessar mundir í ljósi lokunar nokkurra stofnana bandaríska alríkisins og deilu Trump við Demókrata um fjármögnun hins umdeilda landamæraveggs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Því hafa margir velt fyrir sér hvort að höfundar þáttanna hafi náð að ferðast í gegnum tímann til dagsins í dag en hægt er að sjá þessa ótrúlegu klippu hér að neðan.