Khaled hefur búið á Íslandi í sjö ár og segist hafa notið hverrar mínútu sem hann hefur dvalið hér á landi.

„Þessi hrífandi náttúrufegurð, lifandi menning og samfélag sem býður mig velkominn hafa gert Ísland að stað sem er ótrúlegt að geta kallað heimili mitt. Mér finnst gaman að skoða landsbyggðina um helgar, smakka nýjan íslenskan mat og taka þátt í sjálfboða- og félagsstarfi. Lífsgæðin hér eru sannarlega einstök og ég er þakklátur fyrir að vera hluti af svo kraftmiklu og hvetjandi samfélagi,“ segir hann.

Khaled segist njóta þess að verja frítíma sínum með hundinum Freyju, ferðast og kynnast ólíkri menningu.

„Ég hef líka mikinn áhuga á ljósmyndun og nýt þess að taka myndir af landslagi og dýrum. Mér finnst líka gaman að gera tilraunir í matargerð og prófa nýjar uppskriftir í frítíma mínum. Þessi áhugamál gefa mér færi á að slaka á, læra nýja hluti og fá útrás fyrir sköpunargáfuna.“

Khaled heillaðist af náttúrufegurðinni á Íslandi.

Mikilvægt að koma vel fyrir

Khaled vinnur í þjónustugeiranum og sérhæfir sig í þjónustu við viðskiptavini.

„Ég nýt þess að eiga samskipti við viðskiptavini og legg mig alltaf fram um að koma vel fyrir. Hvort sem ég er að vinna á hóteli eða að aðstoða viðskiptavini í verslunum. Ég tel að það að koma vel fyrir og vera aðgengilegur sé lykillinn að því að því að veita framúrskarandi þjónustu,“ segir hann.

Þessi viðhorf Khaleds sýna sig meðal annars í því að hann er alltaf flottur í tauinu og hugsar út í hvert einasta smáatriði hvað varðar fötin sem hann klæðist.

„Ég hef mikla ástríðu fyrir tísku og hef alltaf haft áhuga á nýjustu straumum og stílum. Ég leita stöðugt nýrra leiða til að tjá mig með því sem ég klæðist og hvernig ég kem fyrir fólki fyrir sjónir. Ég er alltaf spenntur fyrir að læra meira. Ég trúi því að tískan sé hvetjandi og valdeflandi fyrir fólk og ég er spenntur fyrir að vera hluti af þeirri valdeflingu.“

Khaled segist ekki eiga uppáhaldsfatahönnuð eða fatamerki. Hann er meira fyrir að finna föt sem hann elskar og falla vel að hans persónulega stíl.

„Mér finnst gaman að blanda saman mismunandi vörumerkjum og stílum til að búa til einstakt útlit sem hentar mér. Ég er víðsýnn og sveigjanlegur þegar kemur að tísku og legg áherslu á að finna föt sem falla að mínum smekk og óskum,“ segir hann.

„Mér finnst gaman að versla á ýmsum stöðum, það veltur á því hverju ég er að leita að. Ég elska að skoða mismunandi búðir bæði á netinu og í eigin persónu, til að finna einstök föt sem henta mínum stíl. Nokkrir af uppáhaldsstöðum mínum til að versla á eru Frakkland, Ítalía, England og líka Ísland. Mér finnst þessi lönd bjóða upp á frábæra blöndu af klassískum og töff stílum og ég er alltaf innblásinn af tískunni sem ég sé þar.“

Khaled leitar stöðugt nýrra leiða til að tjá sig með því sem hann klæðist. Með tímanum hefur hann fundið sinn eigin stíl.

Elskar hvítar skyrtur

Khaled lýsir fatastíl sínum sem blöndu af klassískum og nútímalegum stíl. Hann elskar tímalausan klæðnað eins og vel sniðinn blazer-jakka og straujaða hvíta skyrtu en finnst líka gaman að bæta við töff hlutum eins og persónulegum, einstökum skartgripum eða fallegum úrum og armböndum.

„Mér finnst mikilvægt að eiga fylgihluti í fataskápnum sem hægt er að blanda saman við aðra fylgihluti og skapa þannig einstakan og persónulegan stíl. Á heildina litið reyni ég að klæða mig á þann hátt að ég sé sjálfsöruggur og líði þægilega á sama tíma og ég tjái persónuleika minn og sköpunargáfu,“ segir hann.

Uppáhaldsflíkur Khaleds eru hvítar skyrtur með gylltum og silfurlituðum ermahnöppum.

„Ég elska klassíska, tímalausa útlitið á hvítri skyrtu, en gylltu hnapparnir bæta við lúxus og glæsileika sem gera hana sérstaka. Þegar ég klæðist henni finnst mér ég sjálfsöruggur og í jafnvægi, eins og ég geti ráðið við allt sem verður á vegi mínum,“ segir hann og bætir við að auk þess sé hægt bæði hægt að klæða hana upp með því að vera í fínum jakka við eða niður með því að klæðast gallabuxum og strigaskóm.

Bandarískur ljósmyndari bað Khaleb og vinkonu hans að sitja fyrir á þessari mynd. Hann segir það hafa verið skemmtilega reynslu. MYND/JOHN LE

Fylgir ekki straumnum

Khaled segir aðspurður að hann telji að allir hafi einhvern tímann gerst sekir um tískumistök og þar er hann engin undantekning.

„Mín voru að gera mér ekki grein fyrir því að rétt snið getur skipt öllu máli. Með tímanum hef ég lært að huga betur að sniði og hlutföllum og passa upp á að fötin klæði líkama minn vel. Ég lagði áður fyrr of mikla áherslu á að fylgja straumum, frekar en að finna minn eigin persónulega stíl. Núna set ég í forgang að velja föt sem mér líkar virkilega vel við og líður vel í, óháð því hvort þau eru í tísku þá stundina eða ekki. Á heildina litið hef ég lært að tíska snýst um að tjá sig og líða vel í eigin skinni, frekar en að fylgja hópnum,“ segir hann.

Khaled segist ekki leita út á við, eins og í tímarit eða kvikmyndir til að fá innblástur þegar kemur að hans persónulega stíl.

„Fyrir mig snýst þetta meira um að tjá persónuleika minn og klæðast því sem mér finnst passa mér. Ég trúi því að stíll sé form sjálfstjáningar og ég vil frekar búa til mitt eigið einstaka útlit en að fylgja tískustraumum eða herma eftir stíl einhvers annars,“ segir hann.

„Ég vil klárlega föt sem sameina bæði stíl og þægindi. Ég tel að tíska sé ekki bara að líta vel út heldur líka að líða vel. Ég er alltaf að leita að fötum sem eru bæði smart og þægileg og ég elska að finna hluti sem bjóða upp á það besta af báðum heimum. Eins og ég segi alltaf: Það sem þú klæðist er hvernig þú kynnir þig fyrir heiminum, sérstaklega í dag, þegar mannleg samskipti eru svo hröð.“

Khaled finnst gaman að blanda sama ólíkum stílum, persónulegir skartgripir eða úr setja svo punktinn yfir i-ið.