Leikskáldið og tónlistarmaðurinn Matthías Tryggvi Haraldsson skrifaði leikritið Síðustu dagar Sæunnar sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu á föstudag. Verkið fjallar um dauðann á grátbroslegan hátt og segir frá hinni dauðvona Sæunni sem leikin er af Guðrúnu Gísladóttur.
„Þetta er lítið fræ sem var sáð á námskeiði í Listaháskólanum og gat af sér fyrra verk mitt sem hét Griðastaður. Það gerðist í IKEA og Jörundur Ragnarsson var svo góður að flytja það fyrir mig. Það fór einhvern veginn á flug og í því ferli rambaði ég bara á þetta viðfangsefni. Samband okkar við dauðann og dauðleika, samband sonar og móður og forgengileika margra hluta,“ segir Matthías.
Matthías gegndi stöðu leikskálds Borgarleikhússins 2020–2021 ásamt Evu Rún Snorradóttur og segist hann þá hafa fengið góðan tíma til að velta fyrir sér viðfangsefninu. Sem partur af rannsóknarvinnunni tók Matthías viðtöl við fólk á ólíkum aldri um samband þeirra við dauðann en úr því varð til útvarpsþáttaröðin Allir deyja sem var flutt á Rás 1 í fyrra.
„Ég ákvað að nálgast dauðann sem svona vörðu eða stórviðburð á lífsleiðinni. Maður fæðist og er skírður eða gefið nafn, svo er einhvers konar manndómsvígsla eða ferming, svo oft gifting og loks dauði og útför. Það var eiginlega bara svona hliðarafurð af þessu öllu saman, þessir þættir á Rás 1. Mér finnst mjög skemmtileg tilhugsun að fólk geti hlustað á þættina, horft á leikritið og séð svona ólíka anga á þessari sömu vegferð,“ segir hann.

Hressandi að hugsa um dauðann
Dauðinn er nokkuð þungt viðfangsefni og eitthvað sem fæstir vilja hugsa mikið um í sínu lífi. Fannst þér erfitt að fjalla um þetta viðfangsefni?
„Ég skil hvað þú meinar og ákvað þess vegna að hafa verkið bráðfyndið og stórskemmtilegt. Þetta er í raun miklu fyndnara en margar grínsýningar sem færu á Stóra sviðið. En maður fær það bara svona í kaupbæti að það er mjög sorglegt líka,“ segir Matthías kíminn.
Að sögn Matthíasar er það öllum hollt að hugsa um dauðann og segist hann hafa séð lífið í öðru ljósi fyrir vikið.
„Það er bara hressandi að hugsa svolítið rækilega um dauðann, ég upplifi lífið sem dýrmætara fyrir vikið. Maður sér litina skærari í kringum sig og er þakklátari fyrir tengslin sín. Það er ekkert erfitt að fjalla um dauðann af því ef maður hugsar nógu vel um dauðann þá er maður alltaf á endanum farinn að hugsa um lífið,“ segir hann.
Það er bara hressandi að hugsa svolítið rækilega um dauðann, ég upplifi lífið sem dýrmætara fyrir vikið.
Stjórnsamur en bældur pönkari
Eins og áður sagði fjallar Síðustu dagar Sæunnar um Sæunni sem Guðrún Gísladóttir leikur en Jóhann Sigurðarson leikur eiginmann hennar Trausta og Snorri Engilbertsson bregður sér í nokkur hlutverk.
Hvernig karakter er Sæunn?
„Una Þorleifsdóttir leikstjóri bendir á að hún er stjórnsöm, sem ég hugsa að sé hárrétt. Hún er svona bældur pönkari að því leyti að hún er búin að vera að vesenast í því að þóknast einhverju ytra áliti alltof lengi og núna er að brjótast út eitthvert sjálfstæði og ímyndunarafl sem fékk kannski ekki að njóta sín þegar best var á kosið.“
Spurður um hvað hafi komið fyrir Sæunni segir Matthías:
„Hún bara nefnir ónefndan sjúkdóm og mér fannst ekkert atriði að láta þetta fjalla um ákveðinn sjúkdóm. En við finnum að það leggst þungt á hana eins og einhver dómur frá læknisyfirvaldinu og svo deyr hún. Nei, maður má ekki segja það,“ segir Matthías og hlær.

Íslendingar dauðabælt þjóðfélag
Matthías segir Íslendinga vera dauðabælt þjóðfélag.
„Samfélög eru flokkuð í þau sem samþykkja dauðann og þau sem forðast hann. Við erum þeim megin sem forðast dauðann og það hefur ákveðna firringu í för með sér og fjarlæga afstöðu gagnvart eigin líkama og kannski bara ýmsum þáttum lífsins. Við náum ekki að sjá heildarboga lífsins ef einn liðurinn eða kaflinn er bara sveipaður hulu.“
Trúir þú á líf eftir dauðann?
„Á kvöldin já, en ekki á morgnana. Ég sveiflast bara og veit það ekki. Mér finnst frelsandi afstaða að segja að ég viti ekkert hvað gerist eftir dauðann og finnst það alveg jafn skýr afstaða og hvað annað. Mínar hugmyndir um það væru hvort eð er mjög ófullkomnar.“
Mér finnst frelsandi afstaða að segja að ég viti ekkert hvað gerist eftir dauðann og finnst það alveg jafn skýr afstaða og hvað annað.
Drepur alltaf mömmuna
Matthías er lærður sviðshöfundur frá Listaháskóla Íslands en útskriftarverkefni hans af þeirri braut 2018 var einleikurinn Griðastaður sem fjallaði einnig um dauðann. Hann segist ekki útiloka að hann muni enda á því að skrifa þríleik um dauðann en tekur þó fram að móðir hans furði sig eilítið á þessu athæfi sonar síns.
„Mamma mín grínast stundum í mér og segir „Hérna er hann sonur minn sem drepur alltaf mömmuna í öllum leikritum.“ Þannig kannski væri sterkur leikur að taka viðtal við hana af hverju ég er að skrifa þetta,“ segir Matthías.
Matthías er yfirleitt með mörg járn í eldinum en auk þess að vera meðlimur hljómsveitarinnar Hatara starfar hann sem texta- og hugmyndasmiður á auglýsingastofunni Brandenburg. Matthías eignaðist nýlega sitt fyrsta barn með unnustu sinni Brynhildi Karlsdóttur, sviðshöfundi.
„Mitt helsta verkefni í lífinu er að vera með dóttur minni og fylgjast með henni vaxa og dafna, það er eiginlega ekkert mikilvægara en það. Þess á milli skrifa ég auglýsingar sem er líka mjög uppbyggilegt og skemmtilegt.“