Leik­skáldið og tón­listar­maðurinn Matthías Tryggvi Haralds­son skrifaði leik­ritið Síðustu dagar Sæunnar sem frum­sýnt verður í Borgar­leik­húsinu á föstu­dag. Verkið fjallar um dauðann á grát­bros­legan hátt og segir frá hinni dauð­vona Sæunni sem leikin er af Guð­rúnu Gísla­dóttur.

„Þetta er lítið fræ sem var sáð á nám­skeiði í Lista­há­skólanum og gat af sér fyrra verk mitt sem hét Griða­staður. Það gerðist í IKEA og Jörundur Ragnars­son var svo góður að flytja það fyrir mig. Það fór ein­hvern veginn á flug og í því ferli rambaði ég bara á þetta við­fangs­efni. Sam­band okkar við dauðann og dauð­leika, sam­band sonar og móður og for­gengi­leika margra hluta,“ segir Matthías.

Matthías gegndi stöðu leik­skálds Borgar­leik­hússins 2020–2021 á­samt Evu Rún Snorra­dóttur og segist hann þá hafa fengið góðan tíma til að velta fyrir sér við­fangs­efninu. Sem partur af rann­sóknar­vinnunni tók Matthías við­töl við fólk á ó­líkum aldri um sam­band þeirra við dauðann en úr því varð til út­varps­þátta­röðin Allir deyja sem var flutt á Rás 1 í fyrra.

„Ég á­kvað að nálgast dauðann sem svona vörðu eða stór­við­burð á lífs­leiðinni. Maður fæðist og er skírður eða gefið nafn, svo er ein­hvers konar mann­dóms­vígsla eða ferming, svo oft gifting og loks dauði og út­för. Það var eigin­lega bara svona hliðar­af­urð af þessu öllu saman, þessir þættir á Rás 1. Mér finnst mjög skemmti­leg til­hugsun að fólk geti hlustað á þættina, horft á leik­ritið og séð svona ó­líka anga á þessari sömu veg­ferð,“ segir hann.

Guðrún Gísladóttir og Jóhann Sigurðarson fara með hlutverk hjónanna Sæunnar og Trausta í verkinu Síðustu dagar Sæunnar.
Mynd/Grímur Bjarnason

Hressandi að hugsa um dauðann

Dauðinn er nokkuð þungt við­fangs­efni og eitt­hvað sem fæstir vilja hugsa mikið um í sínu lífi. Fannst þér erfitt að fjalla um þetta við­fangs­efni?

„Ég skil hvað þú meinar og á­kvað þess vegna að hafa verkið bráð­fyndið og stór­skemmti­legt. Þetta er í raun miklu fyndnara en margar grín­sýningar sem færu á Stóra sviðið. En maður fær það bara svona í kaup­bæti að það er mjög sorg­legt líka,“ segir Matthías kíminn.

Að sögn Matthíasar er það öllum hollt að hugsa um dauðann og segist hann hafa séð lífið í öðru ljósi fyrir vikið.

„Það er bara hressandi að hugsa svo­lítið ræki­lega um dauðann, ég upp­lifi lífið sem dýr­mætara fyrir vikið. Maður sér litina skærari í kringum sig og er þakk­látari fyrir tengslin sín. Það er ekkert erfitt að fjalla um dauðann af því ef maður hugsar nógu vel um dauðann þá er maður alltaf á endanum farinn að hugsa um lífið,“ segir hann.

Það er bara hressandi að hugsa svo­lítið ræki­lega um dauðann, ég upp­lifi lífið sem dýr­mætara fyrir vikið.

Stjórn­samur en bældur pönkari

Eins og áður sagði fjallar Síðustu dagar Sæunnar um Sæunni sem Guð­rún Gísla­dóttir leikur en Jóhann Sigurðar­son leikur eigin­mann hennar Trausta og Snorri Engil­berts­son bregður sér í nokkur hlut­verk.

Hvernig karakter er Sæunn?

„Una Þor­leifs­dóttir leik­stjóri bendir á að hún er stjórn­söm, sem ég hugsa að sé hár­rétt. Hún er svona bældur pönkari að því leyti að hún er búin að vera að vesenast í því að þóknast ein­hverju ytra á­liti allt­of lengi og núna er að brjótast út eitt­hvert sjálf­stæði og í­myndunar­afl sem fékk kannski ekki að njóta sín þegar best var á kosið.“

Spurður um hvað hafi komið fyrir Sæunni segir Matthías:

„Hún bara nefnir ó­nefndan sjúk­dóm og mér fannst ekkert at­riði að láta þetta fjalla um á­kveðinn sjúk­dóm. En við finnum að það leggst þungt á hana eins og ein­hver dómur frá læknis­yfir­valdinu og svo deyr hún. Nei, maður má ekki segja það,“ segir Matthías og hlær.

Matthías segist trúa á líf eftir dauðann á kvöldin en ekki á morgnana.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ís­lendingar dauða­bælt þjóð­fé­lag

Matthías segir Ís­lendinga vera dauða­bælt þjóð­fé­lag.

„Sam­fé­lög eru flokkuð í þau sem sam­þykkja dauðann og þau sem forðast hann. Við erum þeim megin sem forðast dauðann og það hefur á­kveðna firringu í för með sér og fjar­læga af­stöðu gagn­vart eigin líkama og kannski bara ýmsum þáttum lífsins. Við náum ekki að sjá heildar­boga lífsins ef einn liðurinn eða kaflinn er bara sveipaður hulu.“

Trúir þú á líf eftir dauðann?

„Á kvöldin já, en ekki á morgnana. Ég sveiflast bara og veit það ekki. Mér finnst frelsandi af­staða að segja að ég viti ekkert hvað gerist eftir dauðann og finnst það alveg jafn skýr af­staða og hvað annað. Mínar hug­myndir um það væru hvort eð er mjög ó­full­komnar.“

Mér finnst frelsandi af­staða að segja að ég viti ekkert hvað gerist eftir dauðann og finnst það alveg jafn skýr af­staða og hvað annað.

Drepur alltaf mömmuna

Matthías er lærður sviðs­höfundur frá Lista­há­skóla Ís­lands en út­skriftar­verk­efni hans af þeirri braut 2018 var ein­leikurinn Griða­staður sem fjallaði einnig um dauðann. Hann segist ekki úti­loka að hann muni enda á því að skrifa þrí­leik um dauðann en tekur þó fram að móðir hans furði sig ei­lítið á þessu at­hæfi sonar síns.

„Mamma mín grínast stundum í mér og segir „Hérna er hann sonur minn sem drepur alltaf mömmuna í öllum leik­ritum.“ Þannig kannski væri sterkur leikur að taka við­tal við hana af hverju ég er að skrifa þetta,“ segir Matthías.

Matthías er yfir­leitt með mörg járn í eldinum en auk þess að vera með­limur hljóm­sveitarinnar Hatara starfar hann sem texta- og hug­mynda­smiður á aug­lýsinga­stofunni Branden­burg. Matthías eignaðist ný­lega sitt fyrsta barn með unnustu sinni Bryn­hildi Karls­dóttur, sviðs­höfundi.

„Mitt helsta verk­efni í lífinu er að vera með dóttur minni og fylgjast með henni vaxa og dafna, það er eigin­lega ekkert mikil­vægara en það. Þess á milli skrifa ég aug­lýsingar sem er líka mjög upp­byggi­legt og skemmti­legt.“