„Ég á­kvað að fermast því ég trúi á Guð og Jesú Krist. Á­stæðan fyrir því að ég trúi á Guð er að hann hjálpaði mér í gegnum veikindi mín sem byrjuðu 2018 og ég trúi því að Guð hafi læknað mig. Ég var dug­legur að biðja bænir og fann að ég var bæn­heyrður. Því var engin spurning fyrir mig að fermast. Ég vil hafa Jesú að leið­toga lífs míns.“

Þetta segir Hjörtur Elías Ágústs­son, 13 ára nemandi við Brekkju­lækjar­skóla á Akra­nesi. Hann fermist í Akra­nes­kirkju sunnu­daginn 26. mars næst­komandi.

„Það hefur gengið mjög vel í fermingar­fræðslunni. Ég hef lært heil­margt um Jesú og hans verk, náunga­kær­leikann og að virða náungann. Við fórum líka í stór­skemmti­lega fermingar­ferð í Vatna­skóg; Grundar­skóli og Brekku­lækjar­skóli saman,“ upp­lýsir Hjörtur sem er jafn­framt búinn að fara í tíu fermingar­messur í vetur og hlakkar mikið til fermingar­dagsins.

„Ég hlakka mest til að taka þetta skref að fermast. Líka að hitta gestina mína, sem verða um 100 talsins, og auð­vitað að fá gjafirnar. Efst á óska­listanum er PlaySta­tion 5-leikja­tölva og ferð á heima­leik Liver­pool í Liver­pool. Það er draumurinn minn,“ segir Hjörtur sem æfir fót­bolta með 4. flokki hjá ÍA og fékk bikar með liði sínu á Rey Cup í fyrra.

„Fót­boltinn er bara lífið og ég veit allt sem hugsast getur um fót­bolta. Ég spila sem bak­vörður og á kantinum, er skot­fastur og dug­legur að skora. Minn stærsti draumur er að komast í A-lands­liðið í knatt­spyrnu og jafn­vel at­vinnu­mennsku í fram­tíðinni, en plan B væri að verða söngvari og tón­listar­maður. Ég er á­gætis söng­maður, finnst gaman að koma fram á sviði og tek þátt í öllu slíku í skólanum,“ segir Hjörtur sem ætlar að fermast í svörtum spari­buxum, skyrtu, leður­skóm og leður­jakka.

Ritningar­versið sem hann valdi sér á fermingar­daginn er „Sælir eru hjarta­hreinir, því þeir munu Guð sjá“.

„Ég hef ekki enn á­kveðið hvað ég geri við fermingar­peninginn en hugsa að ég leggi hann inn í banka til að safna mér fyrir út­borgun í íbúð í fram­tíðinni.“

„Á­stæðan fyrir því að ég trúi á Guð er að hann hjálpaði mér í gegnum veikindi mín sem byrjuðu 2018 og ég trúi því að Guð hafi læknað mig“

Spítala­vistin var leiðin­legust

Hjörtur Elías greindist með eitil­frum­krabba­mein í febrúar 2018 og aftur í maí sama ár, en þá í ristli. Hann er spurður hvernig heilsan sé í dag.

„Heilsan er bara fín og ég er næstum orðinn jafn­góður og ég var áður en ég veiktist. Ég náði að sigra krabbann og út­skrifaðist sam­kvæmt fimm ára reglunni í febrúar,“ segir Hjörtur sem í dag er hraustur og kraft­mikill, en auk þess að æfa fót­bolta er hann að læra á píanó.

„Mig langaði að læra á hljóð­færi eftir að kona á spítalanum í Sví­þjóð kenndi mér heil­mikið á píanóið þar. Núna hef ég lært í þrjú ár, er orðinn nokkuð góður og farinn að semja ró­lega píanó­tón­list sjálfur. Hver veit nema ég spili á píanó fyrir gestina í fermingar­veislunni, ég hef alveg ekki á­kveðið það.“

Hann segir veikindin hafa verið erfiða lífs­reynslu.

„Það var auð­vitað erfitt að fara í margar með­ferðir við krabba­meininu, en erfiðast fannst mér að þurfa að hanga á ein­angrunar­deild spítala í níu mánuði. Það var ömur­lega leiðin­legt, en nauð­syn­legt.“

Fótbolti er líf og yndi Hjartar sem spilar með 4. flokki ÍA. Hann dreymir um fermingarferð á heimaleik með Liverpool og atvinnumennsku í framtíðinni.
Mynd/Aðsend

„Minn stærsti draumur er að komast í A-lands­liðið í knatt­spyrnu og jafn­vel at­vinnu­mennsku í fram­tíðinni, en plan B væri að verða söngvari og tón­listar­maður“

Her­maður kom með Guðs gjöf

Íris Jóns­dóttir, móðir Hjartar Elíasar, segir son sinn allan að koma til og braggast vel.

„Hjörtur er flottur ung­lingur sem blómstrar hér á Skaganum, fullur sjálfs­trausts og sjálfs­öryggis og hann óttast ekki neitt. Hann er vin­sæll og á góða vini sem hann hangir með úti langt fram á kvöld, nýtur þess að vera frjáls og komast út, og lífið er bara geggjað,“ segir hún, hamingju­söm yfir bata sonarins sem nú þarf að taka námið fastari tökum en jafn­aldrarnir eftir að hafa misst tvö ár úr skóla vegna veikindanna.

„Lyfja­með­ferðirnar réðust á ó­næmis- og stoð­kerfi Hjartar og sökum á­hrifa þeirra er hann nú í tann­réttingum og kominn með gler­augu. Það er margt sem spilar inn í vegna á­hrifa lyfjanna og hann er í alls konar prógrammi en það lítur allt vel út.“

Leiðin lá fljótt upp á við hjá Hirti Elíasi eftir að hinn fullkomni beinmergsgjafi fannst í 28 ára hermanni frá Þýskalandi. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi var talað um kraftaverk. Þetta var Guðs gjöf.

Eftir að Hjörtur greindist með krabba­meinið og í öllu sjúk­dóms­ferlinu leitaði fjöl­skyldan í trúna.

„Ég hef alla tíð haldið í mína barna­trú. Ég trúi því að Guð hafi verið með okkur og gefið að vel gekk með Hjört. Við fjöl­skyldan báðum fyrir Hirti á hverju kvöldi og það voru margir sem báðu fyrir honum um land allt. Undir það síðasta var tíminn orðinn naumur því ekki fannst hæfur bein­mergs­gjafi. Þá runnu tvær grímur á læknana sem kölluðu fjöl­skylduna á fund og sögðu helmings­líkur á að Hjörtur myndi lifa veikindin af ef ekki fyndist hæfur bein­mergs­gjafi,“ segir Íris sem á­samt syst­kinum Hjartar fór í rann­sókn til að vita hvort þau gætu gefið honum lífs­nauð­syn­legan bein­merg.

„Til að geta gefið bein­merg þurfa gildin að vera 4,5 af 12 og ekkert okkar náði þeim. Því leit þetta mjög illa út. Einum og hálfum mánuði síðar fengum við sím­tal um að 28 ára þýskur her­maður væri á leið til Sví­þjóðar til að gefa Hirti bein­merg. Hann reyndist vera hinn full­komni bein­mergs­gjafi, í sama blóð­flokki og Hjörtur og með gildin 12 af 12; nokkuð sem gerist nánast aldrei, sögðu læknarnir og á Karó­línska sjúkra­húsinu í Stokk­hólmi var talað um krafta­verk. Eftir bein­mergs­gjöfina lá leiðin svo fljótt upp á við hjá Hirti sem leið strax betur og sigraðist smám saman á krabbanum. Þetta var Guðs gjöf.“

Þetta viðtal birtist fyrst í Fermingarblaði Fréttablaðsins sem gefið var út föstudaginn 17. mars 2023