Hljómsveitin FM Belfast vakti gífurlega lukku á tónleikum sínum á Kaffibarnum í gærkvöldi og var trommuleikari bandsins, Ívar Pétur Kjartansson, hrókur alls fagnaðar þegar hann var borinn á milli hljómsveitargesta, út af staðnum og svo aftur inn.  Sá gjörningur er gjarnan kallaður „crowdsurf,“ en sjá má myndbönd frá atvikinu hér að neðan.

Í samtali við Fréttablaðið segir Ívar að í þrengslum Kaffibarsins hafi safnast mikið saman af fólki og því ekki allir komist fyrir inni á staðnum en mikill mannskapur var einnig fyrir utan staðinn. Rífandi stemning hafi verið á staðnum þegar sveitin spilaði lagið Underwear undir lok tónleikanna.  

„Það var bara rosa góð stemning og svo bættist alltaf í mannskarann. Kaffibarnn er náttúrulega pínu lítill staður og það bættist alltaf í fólkið út á götu. Ég geri þetta oft á tónleikum, að crowdsurfa, þegar við kynnum alla meðlimi í lokin og ég sá að það var fullt af fólki fyrir utan og svo ég hugsaði með mér að það yrði eiginlega bara auðveldara að crowdsurfa fyrir utan heldur en inni.“

Og hafðiru fulla trú á mannskapnum?

„Já, algjörlega þau voru öll í miklu stuði. Svolítið margir í símanum kannski sem ég kallaði bara á að halda á mér svo ég myndi ekki skella í jörðina.“

Atvikið hefur vakið gífurlega mikla athygli á samfélagsmiðlum og voru þó nokkrir sem tóku upp myndband af Ívari og deildu á netinu. 

„Ég bjóst við að þetta yrði fyndið en kannski ekki alveg að þetta myndi vekja upp svona mikla lukku. Þetta var góður endir á mjög skemmtilegum tónleikum.“

Vann kvöldið
„Við erum öll tiltölulega hógvær og ekki mikið fyrir athyglina dags daglega en þegar við komum á svið þá kviknar á einhverju hjá okkur. Þá erum við líka með mikið keppnisskap, hvort okkar geti toppað hvort annað á sviðinu. 

Þetta eru auðvitað allt snillingar sem ég er með í bandi þannig maður þarf að beita ýmsum brögðum til þess að toppa þau á sviði.“

Myndirðu segja að þú hafir unnið kvöldið? 

„Já ég vann kvöldið. Hljómsveitin er búin að sammælast um það að ég hafi unnið þetta,“ segir Ívar og hlær.  

Næstu tónleikar FM Belfast hér á landi verða á Hard Rock Café þann 14. desember næstkomandi og ætlar hljómsveitin að bjóða upp á Litlu jólin. „Ég var að segja við krakkana áðan að ég ætla að crowdsurfa í gegnum vegginn þar eins og bíllinn á Hard Rock í gamla daga,“ segir Ívar að lokum.