„Við fórum hring í sumar, á­kváðum að taka bara lög eftir okkar upp­á­halds­menn,“ segir Kristjana um til­drög tón­leikanna. „Svo for­fölluðust tón­leikar á höfuð­borgar­svæðinu sem áttu að vera í lok sumars.“
Því á­kváðu þau að slá til og fara í sam­starf, en við­burðurinn er liður í haust­tón­leika­röð Jazzklúbbsins Múlans.

„Þetta eru lög eftir Bubba, KK og Magga Ei­ríks og fleiri. Allt lög eftir karl­manns­höfunda eða lög sem hafa orðið fræg í flutningi karl­manna,“ segir Kristjana.
Að­spurð um eftir­lætis lag á dag­skránni segir hún: „Að öllum ó­löstuðum er það gamalt lag sem Raggi Bjarna söng, gamalt frá Andy Willi­ams. Á upp­runa­málinu heitir það May each day of the year be a good day, en ís­lenski textinn er eftir Jóhönnu G. Erlings og heitir Megi dagur hver fegurð þér færa. Þetta er frá­bært lag og æðis­legur texti og við erum mjög hamingju­söm með hvernig lagið fór í út­setningunni hjá okkur.“