Nike var áberandi á heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu sem lauk um síðustu helgi þar sem þær bandarísku stóðu uppi sem sigurvegarar. Nike var styrktaraðili 14 liða af 24 á mótinu og þar af þriggja af fjórum liðum í undanúrslitum. Ásamt því spilaði rúmlega helmingur leikmanna í takkaskóm frá Nike.

Stjörnurnar setja skemmtilegan svip á buxurnar. nordicphoto/GETTY

Íþróttakonurnar sem kepptu í Nike á þessu heimsmeistaramóti voru frá Bandaríkjunum, Hollandi, Síle, Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Frakklandi, Englandi, Noregi, Kanada, Kína, Brasilíu, Suður-Afríku, Suður-Kóreu og Nígeríu.

Sala sem sló öll met

Bandaríska treyjan var sú sem sló all rækilega í gegn á meðan á mótinu stóð. Um mitt mót var treyja bandaríska kvennalandsliðsins orðin mest selda treyjan á einu tímabili í bæði kvenna- og karlaflokki á heimasíðu Nike. Treyja kvennalandsliðsins fór þannig fram úr landsliðstreyju karlaliðs Brasilíu og Barcelona sem voru áður söluhæstu treyjurnar.

Hér má sjá treyjur allra liðanna á heimsmeistaramótinu 2019.

Samkvæmt framkvæmdastjóra Nike, Mark Parker, hefur sala á treyjum landsliðanna aukist um 200 prósent frá síðasta heimsmeistaramóti sem var fyrir fjórum árum.

Miðjumaðurinn Julie Ertz var sátt með treyjuna eins og sést. MYND/GETTY IMAGES

Kvöldið eftir að Bandaríkin sigruðu Holland í úrslitaleiknum setti Nike í sölu uppfærða treyju með fjórum stjörnum á. Stjörnurnar vísa til fjölda heimsmeistaratitla sem bandaríska kvennalandsliðið hefur unnið. Salan fór gríðarlega vel af stað þar sem treyjan seldist upp í mörgum stærðum, bæði í kvenna-, karla- og barnastærðum.

Einfaldleikinn bestur

Búningurinn í heild sinni er einstaklega stílhreinn og flottur en hann þykir minna á búninginn sem bandaríska kvennalandsliðið spilaði í árið 1999, þegar það vann sinn annan heimsmeistaratitil. Hvít treyja, hvítar stuttbuxur og hvítir sokkar. Það er ekki verið að flækja hlutina á treyjunni en á ermunum eru tvær rendur, rauð og blá. Bakstykkið á treyjunni er þakið heitum á 50 fylkjum Bandaríkjanna í ljósgráu letri sem sést lítið, en er samt sem áður skemmtilegur fítus. Fyrir ofan merkið þeirra má sjá þrjár stjörnur sem vísa til heimsmeistaratitlana árin 1991, 1999 og 2015. Einnig má finna þrjár stjörnur aftan á búningnum og á stuttbuxunum.

Búningurinn hefur slegið rækilega í gegn. Rose Lavelle skoraði seinna markið í úrslitaleiknum. MYND/GETTY IMAGES

Margir glæsilegir búningar sáust á heimsmeistaramótinu þetta árið en óhætt er að segja að bandaríska treyjan hafi sigrað, líkt og liðið sjálft.