Guð­mundur Andri Thors­son syng ur eigin ljóð við frum­samin lög sín á geisla­disknum Ó­trygg er ögur­stundin.

„Þegar ég var krakki, var kannski einn heima þá tók ég stundum í rælni fram ljóða­bækur gömlu skáldanna sem mamma hafði bent mér á, Pál Ólafs­son, Þor­stein Er­lings­son, Kristján fjalla­skáld – þjóð­skáldin. Ég las ekki bara bækurnar heldur söng þau, söng upp úr þeim og upp úr mér, svona bull­lög. Kannski er ég bara að gera þetta aftur, þú veist, tvisvar verður gamall maður barn. Þegar ég er einn heima á ég til að taka fram gítar og raula eitt­hvað yfir ein­faldan hljóma­gang og þá verður kannski til lag. Svo hafa lögin safnast upp,“ segir Guð­mundur Andri.

Sungið með Loga

Guð­mundur Andri er enginn ný­græðingur á tón­listar­sviðinu. Hann hefur lengi verið söngvari hljóm­sveitarinnar Spaðar. Auk þess mynda hann og Logi Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar, tví­eykið Þungir jafnaðar­menn og hafa komið fram hjá Sam­fylkingunni og sungið eigin út­færslu á tón­list Abba við góðar undir­tektir.

Lögin á geisla­disknum voru hljóð­rituð á síðasta ári. „Bassa­leikarinn í Spöðum, Guð­mundur Ingólfs­son, sem er snillingur og val­menni, tók lögin upp og kom mynd á þetta. Hann á heiðurinn af því hvernig lögin hljóma. Ég átti svo þessar upp­tökur og hvað átti að gera við þær? Ég ráðgaðist við Aðal­stein Ás­berg Sigurðs­son hjá Dimmu og hann á­kvað að gefa þetta bara út.“

Heiti disksins Ó­trygg er ögur­stundin var upp­haf­lega titill á þýðingu Thors Vil­hjálms­sonar, föður Guð­mundar Andra, á leik­ritinu A Deli­cate Balance eftir Edward Al­bee. Þetta er fyrsta sólóplata Guð­mundar Andra. Beðinn um að lýsa lögunum segir hann: „Lögin eru öll hæg, trega­full og angur­vær en það er ekki endi­lega vegna þess að ég sé svona trega­fullur heldur allt eins vegna hins, að ég spila svo hægt á gítar.“

Hann kemur víða við í ljóðum sínum sem bera heiti eins og Þú ert hér, Ekki vera að gráta elskan mín og Tíminn og tek­rúsin. Hann syngur á disknum hið sí­gilda ljóð Þor­steins Er­lings­sonar, Fyrr var oft í koti kátt, sem hann samdi nýtt lag við. „Lag mitt er í moll og það er trega­fullt. Þarna er nefni­lega verið að fjalla um það að „fyrr“ var oft í koti kátt, það er ekki lengur kátt hjá þeim sem þar talar.“

Það besta er eftir

Guð­mundur Andri gegnir nú anna­sömu starfi þing­manns en hann er einnig höfundur nokkurra skáld­sagna sem hafa hlotið afar góðar við­tökur. Spurður hvort hann sé að skrifa segir Guð­mundur Andri svo ekki vera. Spurður hvort hann hafi ekki þörf fyrir það svarar hann: „Jú, en til þess þarf maður á­kveðinn frið í sálinni og ein­beitingu og inn­stillingu sem ég hef ekki núna og hef ekki haft um hríð. Áður en ég fór á þingið hafði ég ekkert skrifað um tíma. Það er talað um að andinn komi yfir fólk, en stundum yfir­gefur hann fólk, og þá er bara gott að vera laus við hann.“

En mun andinn ekki koma aftur?

„Alveg á­reiðan­lega. Ég held að ég eigi eftir að skrifa mínar bestu bækur eftir sjö­tugt,“ segir hann. „Ég er kominn með nokkrar hug­myndir og eina prýði­lega sem ég ætla mér að skrifa næst.“