Áhrif neyslu trefja á heilsu er töluvert mikilvægari en áður var talið ef marka má niðurstöður nýrrar viðamikillar rannsóknar sem háskólar í borgunum Otago og Dundee í Nýja-Sjálandi birtu nýverið en breska ríkisútvarpið fjallar ítarlega um niðurstöðurnar.

„Vísbendingarnar eru yfirgnæfandi og það má segja að þetta breyti leiknum algjörlega og fólk verður að gera eitthvað í þessu,“ segir einn rannsakendanna, John Cummings í umfjöllun BBC. 

Ætíð hefur verið þekkt að trefjar hafi góð áhrif á meltingu og geti hjálpað til gegn harðlífi en rannsakendur fullyrða að áhrif þess á líkamann séu mun víðtækari en svo. Niðurstöðurnar birtast í læknisfræðitímaritinu Lancet. Teknar voru til skoðanir 185 rannsóknir og 56 klínískar tilraunir.

Þar kemur fram að myndu þúsund manns breyta mataræði sínu og borða nægilegt magn trefja á hverjum degi, myndi það koma í veg fyrir þrettán dauðsföll og sex tilvik af hjartasjúkdómum en í umfjöllun BBC kemur fram að rannsakendur hafi að jafnaði fylgt fólki eftir í einn til tvo áratugi. Þá hjálpaði trefjaríkara mataræði einnig gagnvart sykursýki og stuðlaði að lægri blóðþrýstingi.

Þeir segja að fólk ætti að borða að minnsta kosti 25 grömm af trefjum á dag en flestir jarðarbúar borði mun minna en það, konur borði að meðaltali 17 grömm en karlmenn 21 gramm. Ástæður þess hvað trefjar séu hollar fyrir líkamann sé ekki síst fólgið í því að þær hafi jákvæð áhrif á mikilvægar bakteríur í þörmum líkamans.

Eru niðurstöðurnar ekki síst merkilegar fyrir þær sakir að lágkolvetnakúrar hafa verið æ vinsælli en ef marka má niðurstöðurnar er ekki ráðlegt að skera allt slíkt kolvetni úr fæðu sinni. Þannig má nálgast slíkar trefjar á einfaldan hátt, líkt og með því að borða ávexti  líkt og epli með hýðinu, eða með því að borða heilhveitibrauð og pasta, auk trefjaríkara morgunkorns.