Dagur íslenskrar náttúru hefur verið haldinn hátíðlegur þann 16. september ár hvert síðan árið 2010. Einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök, skólar og stofnanir eru hvött til að hafa daginn sérstaklega í huga í starfsemi sinni.

Guðbjörg Gissurardóttir, útgefandi og ritstýra tímaritsins Í boði náttúrunnar, og samstarfsfólk hennar hefur allt frá upphafi gróðursett tré í kringum þennan dag.

„Við erum með gróðurreit uppi í Heiðmörk og plöntum trjánum í samstarfi við Skógrækt Reykjavíkur. Við blöndum saman ýmsum tegundum, svo sem birki og greni. Við notum tré í tímaritið okkar og þetta er mjög viðeigandi leið til að gefa náttúrunni til baka. Tímaritið er prentað í umhverfisvænni prentsmiðju og trén sem eru notuð í pappírinn eru úr sjálfbærum skógi en okkur langaði til að gera eitthvað meira og þetta er okkar framlag,“ segir Guðbjörg en árið 2013 var hún tilnefnd til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem veitt eru þennan dag.

Fólk meðvitaðra um umhverfið

Átta ár eru frá því að Guðbjörg og eiginmaður hennar, Jón Árnason, settu tímaritið á stofn og á þeim tíma þóttu þau ákveðnir brautryðjendur í umhverfismálum. Spurð hvort hún finni fyrir meiri áhuga á umhverfinu nú en þá segir hún svo vera. 

„Ég finn fyrir miklum mun á ákveðnum sviðum og má þar sem dæmi nefna plastið. Þar hefur orðið umbylting á hugarfari og flestir reyna t.d. að nota taupoka frekar en plastpoka. Við höfum aldrei pakkað tímaritinu í plast, hvorki þegar við sendum það til áskrifenda eða í verslanir heldur er því pakkað inn í pappír. Fólk er líka mun meðvitaðra um matarsóun. Ég áttaði mig nýlega á að fyrir fimmtán árum gerði ég matreiðslubók sem fjallaði í raun um matarsóun en á þeim tíma var það hugtak ekki til. Fólk er almennt orðið meðvitaðra um umhverfið og heilsuna, sem er frábært og er alveg í takt við þann græna og heilbrigða lífsstíl sem við fjöllum um.“

Þessa dagana hefur Guðbjörg í mörg horn að líta en fyrir utan Í boði náttúrunnar gefur hún út tímaritið Fæða / Food. Það kemur út á íslensku og ensku. 

„Þar erum við líka að vinna í tengslum við náttúruna og fjöllum um mat í alls konar samhengi. Þetta er þriðja tölublaðið og þemað núna er sjálfbærni. Sjálfbærni er stórt og mikið umhverfismál og snýst m.a. um hvernig við nýtum og notum náttúruna og mikilvægi þess að ofnýta ekki auðlindir okkar,“ segir Guðbjörg að lokum.

Heimasíða Í boði náttúrunnar er www.ibn.is