Tónlistarmaðurinn og vandræðagemsinn Travis Scott virðist aftur lentur í vandræðum vegna hegðunar sinnar en hann er talinn hafa ráðist á hljóðmann á næturklúbbi í New York borg.

Þetta kemur fram á fréttavef TMZ en ásamt því að hafa kýlt hljóðmanninn í andlitið olli hann skaða á tækjabúnaði næturklúbbsins fyrir um tólf þúsund dollara eða um 1,7 milljónir króna.

Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum Nebula en talsmenn staðarins segja að Scott hafi mætt á staðinn undir miklum áhrifum og hafi atvikið átt sér stað aðeins nokkrum mínutum eftir að hann mætti þangað.

Ástæða veru Scott í New York borg voru tónleikar þar sem hann tryllti lýðinn ásamt tónlistarmanninum Don Oliver.

Scott hefur ekki verið handtekinn í tengslum við málið en það er til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum.

Scott lá áður undir gagnrýni vegna hegðunar sinnar árið 2021 þegar átta manns létust á tónleikum hans vegna troðnings. Hann hefur löngum verið sakaður um að hafa hundsað tilkall áhorfenda um að stöðva tónleika sína þrátt fyrir að troðningurinn hafi verið byrjaður áður en hann steig á svið.