Þórarinn Hjálmars­son, flota­stjóri Icelandair, hefur stýrt sinni síðustu flug­vél sem at­vinnu­flug­maður eftir ná­lega 45 ár í flug­bransanum – og varla er hægt að telja upp allar þær gerðir flug­fara sem hann hefur stjórnað á þeim tíma.

„Þetta eru litlar rellur og upp í stærstu þotur,“ rifjar hann upp í sam­tali við Frétta­blaðið og nefnir þar allt frá Sky­hawk-vélum og Twin Otterum upp í Max-vélarnar sem hann hefur þjálfað flug­menn Ice­landair á, en þess á milli hafa komið við sögu DC-8 far­þega­þotur og Boeing-vélar af mis­jafn­lega breiðu tagi.

Stórum hluta starfs­ævinnar hefur Þórarinn varið inni í flug­hermi sem þjálfunar­flug­stjóri hjá Icelandair, „en flug­tímarnir í há­loftunum eru lík­lega orðnir rösk­lega 16 þúsund talsins,“ segir hann.

Byrjaði 18 ára í bransanum

Flug­ævin­týri Tóta, eins og hann er gjarnan kallaður af vinum og starfs­fé­lögum, byrjaði þegar hann var ráðinn 18 ára gamall til Arnar­flugs sem á­hafna­bíl­stjóri og að­stoðar­maður við það sem til féll á vellinum. Hann vann á símanum, í far­miða­bókunum og á frí­vöru­la­gernum uns hann var svo ráðinn sem at­vinnu­flug­maður hjá Arnar­flugi 21 árs gamall í innan­lands­flugið og síðar á Boeing 737-vélar fé­lagsins.

Eftir tæpan ára­tug lá leiðin svo til Flug­leiða og Icelandair þar sem hann stýrði í fyrstu DC-8 og Boeing 727, en síðasta aldar­fjórðunginn hefur hann svo verið þjálfunar­flug­­stjóri fé­lagsins á seinni tíma far­þega­þotum Boeing, auk þess að gegna stöðu flota­stjóra fé­lagsins fyrir Max-vélarnar þar sem hann hefur haft yfir­um­sjón með inn­leiðingu þeirra og þjálfun á þær síðast­liðinn ára­tug.

Tóti byrjaði 18 ára gamall í flugbransanum. Eftir tæpan ára­tug lá leiðin svo til Flug­leiða og Icelandair þar sem hann stýrði í fyrstu DC-8 og Boeing 727.
Mynd/aðsend

Flug­eðlis­fræðin lítið breyst

En hver hefur verið stóra breytingin í fluginu á þessum tíma?

„Það er nú svo skrýtið að flug­eðlis­fræðin hefur svo til ekkert breyst á öllum þessum ára­tugum sem liðnir eru frá því ég tók fyrst í stýrið,“ segir flug­stjórinn sem talar. „En annarri tækni hefur fleygt fram, svo sem hvað siglinga­fræðina varðar. Í byrjun var stuðst við vita á jörðu niðri, en núna er allt inn­byggt í sjálfa vélina. Svo eru þær orðnar miklu eyðslu­grannari en áður og munar þar afar miklu,“ segir Þórarinn og bendir jafn­framt á þá gríðar­legu vinnu sem farið hafi í það á þessum tíma að auka flug­öryggi á allan máta.

Og ferlinum er lokið, allt hefur sinn tíma. „Já, blessaður vertu, þar gilda nú lands­lögin, hvorki meira né minna, ég er kominn á tíma,“ svarar hann sæll í bragði eftir far­sælan feril.

Bára Alexandersdóttir, eiginkona Þórarins, fagnar með karli sínum lokafluginu á dögunum.
Mynd/aðsend