Spilling í fjármálum og stjórnmálum er það sem Íslendingar hafa mestar áhyggjur af. Í könnun sem MMR gerði fyrr á þessu ári kom í ljós að nærri helmingur landsmanna hefur áhyggjur af því. Eru áhyggjurnar nú meiri en af heilbrigðisþjónustunni sem var áður aðaláhyggjuefni landsmanna. Fréttablaðið fékk Henry Alexander Henrysson, doktor í heimspeki, til að svara því hvers vegna spilling er orðin aðaláhyggjuefni landans.

„Vissulega má örugglega setja margs konar fyrirvara við svona mælingar. Einhverjir munu segja að viðhorf fólks lýsi ekki djúpstæðum skilningi á viðfangsefninu,“ segir Henry. Það á bæði við um spillingu og ójöfnuð. „Aðrir munu benda á að bæði spilling og ójöfnuður í mörgum löndum heims sé þannig að áhyggjur Íslendinga séu ekki viðeigandi. Nokkuð er til í báðum þessum viðhorfum en þó tel ég að við ættum að taka þessar niðurstöður alvarlega.“

„Í öðru lagi sýnist mér almenningur vera ákaflega hugsi og eiga erfitt með að sætta sig við eftirleik fjármálahrunsins.“

Hann telur áhyggjur landsmanna af spillingu og ójöfnuði nátengdar. „Ég get ímyndað mér að þær spretti af því að almenningur hafi fremur sterka hugmynd um að á Íslandi gildi ekki hið sama fyrir alla.“

Könnunin sem um ræðir er gerð í 28 öðrum löndum, þar á meðal Svíþjóð, Bretlandi og Spáni. Þar kemur í ljós að Ísland hefur talsvert meiri áhyggjur af spillingu en meðaltal landanna 28. Þar er meðaltalið 34 prósent, mest í Suður-Afríku þar sem hlutfallið er 69 prósent. Eru áhyggjur Íslendinga af spillingu svipaðar og hjá íbúum Brasilíu, Spánar og Serbíu. Mun meiri en í löndum nær okkur á borð við Svíþjóð og Bretland þar sem hlutfallið er 15 prósent.

Henry segir nokkur atriði styrkja þessa tilfinningu Íslendinga, tilfinningu sem flestir upplifa sem áhyggjur en aðrir kalla afbrýðisemi. „Í fyrsta lagi held ég að við höfum aldrei náð að loka umræðunni um Panamaskjölin og hvað fólst í afhjúpunum þeirra. Þar blandaðist til dæmis saman heimur viðskipta og stjórnmála.“ Þótt tveir þeirra stjórnmálamanna sem þar komu fram sitji enn á þingi og eigi sér sína stuðningsmenn er Henry ekki viss um að trúverðugleiki þeirra í hlutverkum sínum sé mikill.

„Í öðru lagi sýnist mér almenningur vera ákaflega hugsi og eiga erfitt með að sætta sig við eftirleik fjármálahrunsins. Fléttur í kringum skuldajöfnun og einkahlutafélög hafa veitt okkur innsýn í heim sem ekki allir fá að vera þátttakendur í,“ segir Henry. „Að síðustu tel ég að íslenskt samfélag fari nú í gegnum ákveðna tortryggniöldu í garð lýðræðis. Sama alda berst nú yfir flest lönd en hér hefur hún magnast nokkuð oft vegna afglapa kjörinna fulltrúa og tregra viðbragða þeirra til að gangast við ábyrgð.“