Euro­vision söngva­keppnin 2022 verður haldin í Tórínó á Ítalíu. Þetta kemur fram í nýrri til­kynningu frá for­svars­mönnum keppninnar og hafði Tórínó því betur en ítalskar borgir eins og Róm og Mílanó.

Eins og al­þjóð veit fóru Ítalir með sigur úr býtum í keppninni í ár, þar sem rokksveitin Måneskin kom sá og sigraði. Martin Österdahl, fram­kvæmda­stjóri keppninnar segir Tórínó og fyrir­hugaða tón­leika­stað, Pala­Olimpico, upp­fylla allar kröfur keppninnar.

„Eins og við sáum á Vetrar­ólympíu­leikunum 2006 þá upp­fyllir Pala­Olimpico allar kröfur sem eru nauð­syn­legar til að halda heims­við­burð á þessum skala og við erum mjög á­nægð með metnaðinn og skuld­bindingu Tórínó­borgar sem tekur við þúsundum gesta næst­komandi maí,“ er haft eftir Österdahl í til­kynningunni.

Um er að ræða fyrsta skiptið sem Ítalir fá að halda keppnina í slétt þrjá­tíu ár. Fram­kvæmda­stjóri ítalska ríkis­út­varpsins, Car­lo Fu­or­tes, lofar gleði­sprengju í boði Ítala í maí. Fyrri undanúrslitin verða þann 10. maí, seinni þann 12. maí og úrslitin laugardaginn 14. maí 2022.