Körfu­knatt­leiks­þjálfarinn Brynjar Karl Sigurðs­son er nýjasti gesturinn í Pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Hann hefur undan­farin ár þjálfað ungar stúlkur í körfu­bolta, sem spila nú með í­þrótta­fé­laginu Aþenu. Kvik­myndin „Hækkum Rána“ sem ný­verið kom út og fjallar um ferða­lag Brynjars og stúlknanna hefur vakið gífur­legt um­tal í sam­fé­laginu. Í þættinum fer hann yfir söguna alla og gagn­rýnina sem hann hefur fengið:

„Ég gef mig út fyrir að vera einkar fær í að hjálpa kvíða­börnum. Ég er rosa­legt kvíða­barn sjálfur. Ég er mjög orku­mikill og þegar mitt „sympatíska“ kerfi fer á hliðina og ég fer að hafa á­hyggjur þá verður bara eld­gos...þegar ég sé hvað er búið að gerast hjá þessum stelpum á meðan þetta verk­efni hefur verið í gangi finn ég að þetta má ekki hætta,“ segir Brynjar, sem segir að allir sem að verk­efninu koma vilji láta gott af sér leiða:

„Hjá okkur í Aþenu fær enginn borgað fyrir að þjálfa, hvorki ég né aðrir. Það er enginn í þessu fyrir peninginn. Mér finnst gott að ég sé ekki að fá borgað, þó ekki nema bara til að ég sé smá fyrir­mynd þar. Þegar ég var að þjálfa FSU setti ég milljónir í liðið sjálfur úr eigin vasa og ég er líka að borga með mér í þessu núna í Aþenu.

Ég vil láta gott af mér leiða og og hafa góð á­hrif og þetta er það sem ég kann best. Að þjálfa. Á öllum mínum 32 ára ferli sem þjálfari hef ég aldrei verið jafn­stoltur af neinu liði sem ég hef þjálfað. Fólk verður að­eins að fara að kúpla sig inn á það hversu magnaðar þessar gellur eru. Þær eru al­gjör­lega magnaðar og ég veit ekki hvað ég þarf að gera til að þjálfa aftur svona lið. Þetta var ó­trú­legt lið,“ segir Brynjar og getur ekki haldið aftur af tárunum þegar hann talar um stelpurnar.

„Þessar stelpur eru svo miklar fyrir­mynd og það eigin­lega bara breytti heila­starf­seminni hjá fólki að mæta á æfingar. Það er svo rosa­lega upp­örvandi að horfa á þetta. En svo var hópnum tvístrað eftir að þær létu medalíurnar falla…ég man að ég hugsaði þá að minn tími væri bara kominn og ég yrði að hætta og vonandi myndi eitt­hvað gott sitja eftir hjá þessum stelpum. Svo kemur dóttir mín til mín og segir: „Pabbi, flytjum bara til út­landa” og ég hugsaði með mér að það væri bara góð hug­mynd, en mér fannst samt ömur­legt að það væri verið að gengis­fella það sem þessar stelpur væru búnar að gera. Þú verður að átta þig á því að þetta er toppurinn á mínum þjálfara­ferli. Ég mun aldrei toppa það sem gerðist þegar þær létu medalíurnar falla. Þetta var full­komið.

Ég var búin að hugsa frá byrjun að ég vildi að þessar stelpur tækju pláss, létu í sér heyra, væru ó­hræddar við að gera mis­tök og settu sinn eigin standard. Svo á­kveða þær þetta sjálfar, æfa þetta og gera þetta svo. Pældu í hvað þú þarft mikið af vitund til að vera 13 ára og fá þessa hug­mynd og fram­kvæma hana. En svo átti bara að moka þessu undir teppið og ofan í skúffu og hvorki KKÍ né í­þrótta­fé­lögin ætluðu að tala um þetta við stelpurnar. …..Á ein­hverjum punkti hugsaði ég að ég ætlaði aldrei að vera gæinn sem væri búinn að standa á bak við þær allan þennan tíma og svo myndi ég bara hætta. Ég fann að ég yrði að halda þessu á­fram og þetta mætti ekki deyja.“

Segir fólk sem gagnrýnir oft sjálft að áreita börn sín

Brynjar bendir á að fólk sem gagn­rýnir að verið sé að koma illa fram við börn sé oft á tíðum sjálft að á­reita dóttur sína og stelpurnar í liðinu:

„Á­reitið sem dóttir mín hefur orðið fyrir er þannig að ég gæti verið búinn að fara í for­síður allra blaðanna til að ræða það og kvarta undan því að það sé verið að leggja dóttur mína í ein­elti. Hún er kölluð lesbía eftir að hafa rakað á sér hárið og hefur orðið fyrir rosa­legu á­reiti. Síðast fyrir nokkrum dögum sagði stærð­fræði­kennarinn hennar á sam­fé­lags­miðlum að ég væri „Cult-leið­togi“ og fleira í þeim dúr og hún náttúru­lega les þetta allt saman. Ég spyr mig hver er að á­reita börn, en við ætlum ekki að vera nein fórnar­lömb í þessu.“

Hann segir at­vikið þegar stelpurnar létu medalíurnar falla vera magnað og sér finnist það furðu­legt að fólk hafi bara talað yfir þær og fram­hjá þeim eins og þær væru heila­laus vél­menni:

„Ég var búinn að ræða mikið við stelpurnar um það hvort og hvernig þær vildu mót­mæla og gerði þeim grein fyrir því að þeir sem tækju slaginn og stæðu í lappirnar fengju sjaldnast viður­kenninguna fyrir það, eins og sagan sýnir okkur aftur og aftur. Hausinn á þeim fór á fullt og það sem gerðist er bara magnað.“

Segir mörg félög vera orðin að „porn-klúbbum“

Brynjar á langan feril sem þjálfari, en hrífst ekki af þeirri menningu sem er við lýði hjá mörgum fé­lögum:

„Ég hef aldrei þorað að segja þetta, en mér var boðið starf í þjálfara­t­eyminu hjá Memp­his Grizzlies í NBA deildinni. Það var „character defining“ augna­blik hjá mér að segja nei við þessu. Ég hef bara ekki á­huga á því að vera innan um alla þessa peninga af því að þá er þetta allt orðið svo skakkt. Þessi stóru í­þrótta­fé­lög eru oft bara orðin „porn-klúbbar“ þar sem er verið að klæmast á gildum í­þróttanna. Það er ekkert rými fyrir að fá að skora sig á hólm og prófa nýja hluti þó að það komi ekkert út úr því. Mér hefur aldrei verið boðið starf í efstu deild á Ís­landi, þó að ég hafi komið mennta­skóla­liði FSU upp í úr­vals­deild þegar ég var upp úr þrí­tugu. Það varð yngsta fé­lagið í sögunni og með yngsta leik­manna­hópinn til að spila í úr­vals­deild í bolta­grein á Ís­landi.

Mér fannst eigin­lega fyndið að ég hafi ekki fengið nein sím­töl með starfs­til­boðum eftir það. En kannski er það bara það að menn skynja það mjög sterkt að ég hafi ekki á­huga á þeim kúltur sem er í gangi og þess vegna vilja þeir ekki snerta á mér með priki. Höldum okkur við þá skýringu.“

Í þættinum ræða Sölvi og Brynjar um allt ferlið í kringum kvik­myndina og þjálfunina, feril Brynjars og að­ferðir hans og margt margt fleira

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan: