Börkur segir að til að meistaraflokkar félagsins nái að blómstra þurfi þeir að geta æft við bestu aðstæður sem völ er á.

„Þeir þurfa að hafa vel menntaða og hæfa þjálfara og allt utanumhald þarf að vera fyrsta flokks. Það er forsenda þess að ná árangri. Valur er afreksfélag, við viljum ná ákveðnum árangri árlega, vera í toppbaráttu og vinna titla. Það sem við í stjórninni erum að vinna að á hverjum degi, til að það gangi upp, er að vinna í ferlum utanvallar og styrkja undirstöður frá degi til dags,“ segir hann.

„Við teljum okkur komin á ákveðin stall hér heima og vera leiðandi knattspyrnufélag hvað þetta varðar. Önnur félög horfa til okkar, sem er mjög jákvætt. En við vöknum ekki fullmett á morgnana. Við erum sífellt að leita leiða til að bæta okkar árangur, utanumhald og umgjörð og viljum vera betri í dag en í gær. Það knýr okkur áfram að geta lokað augunum að kvöldi dags, litið yfir daginn og sagt: Flott, við tókum framfaraskref.“

Börkur segir titlana tala sínu máli en Valur hefur verið eitt sigursælasta félag Íslands fyrr og síðar.

„Knattspyrnudeildin hefur verið að vinna Íslandsmeistaratitla, bæði í kvenna- og karlaboltanum, og bikarmeistaratitla, og Reykjavíkur- og lengjubikarstitla reglulega undanfarin ár. Við höfum reglulega selt leikmenn til útlanda frá árinu 2003. Við erum býsna stolt af okkar árangri.“

Ígildi atvinnumannaliða

„Við erum óhrædd að segja frá því opinberlega að þessi leiðandi félög á Íslandi eru orðin ígildi atvinnumannaliða. Það er að segja í karlafótbolta. Leikmenn eru að fá ágætlega greitt fyrir að stunda sína íþrótt og sína vinnu. Þetta er vinnan þeirra og þeirra lifibrauð. Samhliða þessu höfum við aukið kröfur á okkar leikmenn jafnt og þétt. Við lítum á að þetta skref, að verða atvinnumannalið eða ígildi þess, muni hjálpa okkur að ná betri árangri í Evrópukeppnum,“ segir Börkur.

Hann vonar að kvennaboltinn fylgi karlaboltanum næstu árin og að stærstu liðin geti orðið að atvinnumannaliðum.

„Það er stórsókn í kvennaboltanum um allan heim. Nú þegar eru leikmenn í þessum stærstu liðum kvennamegin að fá greidda einhvers konar bónusa eða laun. Ég sé fram á að það muni bara aukast á komandi árum þegar meiri peningur verður til í kringum kvennaboltann. Hann verður vonandi sjálfbær. En þangað til reiða þær sig svolítið á þær tekjur sem koma inn karlamegin. Við setjum okkar tekjur í einn pott og greiðum jafnt til kvenna- og karlaliðanna, þá á ég við allan kostnað, gjöld og slíkt,“ segir hann.

„Ég held að í framtíðinni sé okkar stærsta áskorun að ná betur utan um yngri flokka félagsins og vera með þau gæði á þjálfun og fræðslu þannig að krakkarnir skili sér sem betra knattspyrnufólk upp í meistaraflokka okkar en það hefur verið gríðarleg fjölgun iðkenda samhliða uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu og við erum að sjá áður óþekktar iðkendatölur. Við verðum áfram toppklúbbur sem heldur áfram að vinna titla, bæði kvenna- og karlamegin.“