Tónlistarkonan Silja Rós gaf út sína aðra plötu um mánaðamótin, Stay Still. Platan er á Spotify og hefur fengið jákvæð viðbrögð.

Á plötunni færir Silja Rós sig yfir í heim RnB popp-tónlistar og sækir hún innblástur frá djass- og soul-tónlist. Í tilkynningu segir að tilfinningarík rödd hennar dragi hlustendur inn í hreinskilna texta sem eru í forgrunni í lögum hennar.

Silja segir vegferðina að baki plötunni mjög ólíka þeirri sem hún fór þegar hún samdi fyrstu plötuna sína, Silence.

„Lögin á Stay Still voru samin í Los Angeles 2018 yfir tveggja mánaða tímabil og ég byrjaði að vinna plötuna ári seinna,“ útskýrir Silja.

Á plötunni býður Silja hlustendum í ferðalag sjálfsástar. Silja steig meðal annars fram og ræddi upplifun sína á óheilbrigðu sambandi við útgáfu Reality.

„Síðustu mánuðir eru búnir að vera ansi sérstakir. Ég hélt að ég myndi eiga auðvelt með að taka slaginn eftir að hafa opnað á mína eigin sögu fyrr á árinu. En ef eitthvað er þá varð ég bara viðkvæmari fyrir umræðunni og triggeraðist mikið,“ útskýrir Silja Rós. Tími sé kominn til að taka á slíkum málum.

„Þó svo að ég sé oft tilbúin að tala um sögurnar á bak við lögin mín finnst mér langbest að leyfa tónlistinni að tala fyrir sig og ég ætla að gera það í þetta skiptið. Fólk getur þá fundið sínar eigin tengingar við lögin.“