Nína Richter og maðurinn hennar Kristján Hrannar Pálsson búa saman í Vesturbænum ásamt börnum sínum Vigdísi, 5 ára, og Helga sem er þriggja ára. Nína og Kristján eru bæði í tónlist en hann er meðal annars kórstjóri Óháða kórsins. Nína hefur lengi sungið en þau hafa nú samtvinnað fjölþætta hæfni sína í tónlistinni og hafa tekið lagið saman í beinni fyrir vini og vandamenn. Þau ákváðu að láta ekki þar við sitja eftir góð viðbrögð og standa fyrir streymi á hverjum degi í hádeginu í þessari viku þar sem þau syngja og lesa sögur með börnunum, fullkomin afþreying fyrir fjölskyldur til að stytta stundir á þessum fordæmalausu tímum.

„Við höfum haft það mjög gott miðað við aðstæður. Við erum blessunarlega bæði með frekar sveigjanlega stundaskrá þessi misserin. Kristján er organisti og kórstjóri og ég er ljósmyndanemi og tónlistarkona í hjáverkum þannig að þetta kemur sennilega minna við okkur en marga sem eru í níu til fimm prógrammi. Ég veiktist af blóðeitrun í byrjun árs og lá inni á spítala í hálfan mánuð og þurfti að setja námið á pásu,“ segir Nína, sem var enn þá að ná sér af veikindunum þegar leikskólaverkfallið skall á.

„Svo kom samkomubannið í nánast beinu framhaldi. Leikskólinn er með fjöldatakmarkanir og börnin hafa því nánast ekkert verið þar og það verður þannig næstu vikurnar. Þannig að það er engin svakaleg breyting á okkar furðulega hversdegi það sem af er ári,“ bætir hún við.

Helgi og Vigdís skemmta sér vel í heimaleikskólanum svokallaða.
Fréttablaðið/Anton Brink

Heimaleikskólinn á Holtsgötu

Hún segir fjölskylduna afskaplega heppna að búa svo nálægt sjávarsíðunni og því séu fjöruferðir vinsælar.

„Ég er búin að fara í feluleik. Ég var að lita mynd af páskaeggi og prinsessu. Ég er búin að púsla og syngja. Við leikum okkur í garðinum með stóran stiga,“ segir Vigdís, en Helgi bróðir hennar hefur líka verið duglegur.

„Ég er búinn að lita pabba og páskaegg,“ segir hann.

„Þau eru búin að lesa yfir sig af Línu Langsokk og hafa bætt svolítið í prakkarastrikin,“ bætir móðir þeirra við.

Nína segir þau reyna eftir fremsta megni að halda í rútínuna.

„Við köllum það heimaleikskólann. Krökkunum finnst það brjálæðislega asnalegt en þau eru svona að komast yfir það. Þannig er alltaf ákveðinn rammi á tveggja klukkustunda fresti, til dæmis söngur eða sköpun eða frjáls leikur. Við höfum líka verið að prófa okkur áfram með dót sem er ekki dót, til dæmis að leika með kaffibaunir á borðinu og búa til myndir og form úr þeim,“ segir hún.

Kristján segir að þau séu nú þegar vön útiverunni og góðum göngutúrum, enda séu þau bíllaus.

„Svo er auðvitað rosa mikilvægt að við fullorðna fólkið komumst aðeins út í sitt hvoru lagi, hvort sem það er út að ganga eða bara inn í herbergi að lesa á Kindlinum í ró og næði. Svona til að sinna sjálfum sér líka,“ bætir hann við.

Krökkunum finnst gaman að syngja líkt og foreldrunum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hugmynd frá Heiðriki

Nína var byrjuð að vinna í grín-vefseríu um léleg kaup á netinu þegar leikskólinn fór í frí.

„Þannig að ég saltaði það verkefni í bili. Mig langaði að vera með einhvers slags performans þrátt fyrir það, tengjast fólki í gegnum einhverja sköpun. Það er gott fyrir hausinn. Það varð úr að við Kristján ákváðum að vera með tónleika á Instagram, eftir að krakkarnir sofna á kvöldin, þar sem við gerum ábreiður af popplögum í misvel heppnuðum útsetningum, svona eins og helmingurinn af þjóðinni virðist vera að gera,“ segir hún og brosir.

„Við erum búin að vera að spila saman í veislum og brúðkaupum í mörg ár og eigum ansi stóran lager af svoleiðis efni. Ég fékk hugmyndina frá færeyskum kunningja mínum, Heiðríki frá Heygum, sem hefur verið með Instagram-tónleika á hverjum einasta degi í nokkrar vikur,” segir Nína.

„Svo var leikskólinn með samsöng í gegnum Zoom um daginn og ég fann að börnin voru eðlilega spennt fyrir samveru með öðrum börnum. Í kjölfarið sáum við foreldra á Twitter kalla eftir samsöng fyrir yngstu börnin. Við erum hvort eð er að syngja og tralla með þeim hérna heima nánast daglega þannig að við ákváðum að senda það bara út,“ segir Kristján.

„Samkeppnin um athygli á netinu hefur sennilega sjaldan verið meiri,“ segir Nína og hlær. „En fólk er þakklátt og ég held að flestir foreldrar séu þreyttir. Þetta er svakalegt álag fyrir marga, fólk er að vinna mikið eða jafnvel að missa vinnuna og er síðan að takast á við veikindi eða heilsukvíða fyrir eigin hönd eða annara ofan á það. Þetta er að mörgu leyti svo glatað ástand og tónlist er magnað móteitur við flestu sem er glatað.“

Nína segir Helga og Vigdís hér um bil komin með nóg af því að lesa Línu Langsokk.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sjónvarpið fór í páskafrí

Kristján hefur nýtt tímann í að hreinskrifa nótur í tónverk sem hann er að klára.

„Það eru engar kóræfingar eða messur og engin gigg en maður getur verið að æfa sig á orgelið ef maður hefur tíma.“

„Aukatíminn er aðeins takmarkaður með krakkana heima allan daginn en ég ákvað nú samt að skrá mig í pínulítið vafasamt diplómanám í ritlist í einhverjum bandarískum vefskóla og sinna sjálfri mér þannig, auk þess að vera dugleg að fara út að taka myndir af mannlausri borg með hljóðbækur í eyrunum,“ segir Nína.

Þau segja vonast til að aðstæður á landinu muni breytast svo þeim verði fært að túra um landið í sumar með frumsamið orgelverk eftir Kristján við myndbandslistaverk eftir Nínu.

„Við erum í viðræðum við sýningarhóp sem er tengdur við Norræna safnið í Seattle og við ætluðum að vera þar í haust en veiran hefur frestað öllu,“ segir Kristján.

„Kannski tekst mér að gefa út einhvers konar skáldsögu þegar þessu lýkur. Ég lofa að hún fjallar ekki um veirusmit. Þetta jólabókaflóð í desember verður einhverjar náttúruhamfarir. Ég held að allir séu að skrifa bók,“ segir Nína.

Nína og Kristján fóru frumlega leið til að hindra of mikið sjónvarpsgláp á heimilinu þessa dagana.

„Við vorum búin að vera í stríði við sjónvarpið, eins og margir foreldrar, og ákváðum að senda það í geymslu upp á háaloft. Við sögðum krökkunum að sjónvarpið hefði farið ásamt tölvunni í páskafrí,“ segir Nína.

„Sjónvarpið fór í hesthúsið að hvíla sig,“ segir Helgi við mömmu sína.

Nína og Kristján vonast til að gera ferðast um landið í sumar með orgelverk eftir Kristján og mynbandslist eftir Nínu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Veirunni sama um landamæri

Tónleikarnir og streymin hafa hingað til gengið afskaplega vel og þau segjast bara hafa gaman af því með öðrum þegar eitthvað fer úrskeiðis.

„Það er annars ótrúlega skemmtilegt að vera í svona gagnvirku sambandi við áhorfendur, til dæmis kom sjálfur Einar Ágúst úr Skítamóral á stafræna tónleika hjá okkur núna í síðustu viku og við sungum Farin fyrir hann. Það var einstaklega illa flutt en ógeðslega skemmtilegt. Ég bið hann hér með afsökunar á þessu,“ segir Nína.

Þau segjast bæði sannfærð um að þessir flóknu tímar muni hafa varanleg áhrif á hegðun mannkynsins þegar þetta er loks yfirstaðið.

„Hvað okkur sjálf varðar hefur neyslan okkar breyst. Við skipuleggjum matarinnkaupin betur og förum sjaldnar út í búð. Tíminn nýtist líka betur og við erum betur meðvituð um alla rútínu,“ segir Kristján.„Umfram allt finnst mér andrúmsloftið hafa breyst, ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu. Ég held að aldrei áður hafi öll heimsbyggðin verið sameinuð í einu verkefni, nema kannski stjórnlausri neyslu á drasli. Þegar veirunni er drullusama um landamæri þá þarf okkur að vera sama um þau líka,“ segir Nína.

Hægt er að fylgjast með fjölskyldunni í beinni í hádeginu í dag á Instagramminu Krakkastund.