Djass­búllan Skugga­baldur mun syngja sitt síðasta á laugar­dag en til stendur að loka staðnum. Snorri Helga­son, tón­leika­haldari Skugga­baldurs, segir dag­skrá laugar­dagsins enn vera í mótun.

„Þetta á að vera al­menn djamm­sessjón, mjög margir af þeim sem hafa verið að spila hjá okkur ætla að koma og kveðja staðinn. Magnús Tryg­va­son Eli­as­sen trommari er að stilla þessu öllu saman upp en það er ekki alveg niður­neglt hvernig þetta verður,“ segir Snorri og bætir því við að gleðin muni standa yfir fram eftir kvöldi.

Spurður um hvort hann eigi von á mörgum kollegum sínum úr tón­listar­senunni á laugar­dag segist Snorri gera ráð fyrir því.

„Maður finnur bara að djass­senunni þykir rosa­lega vænt um þennan stað. Enda var þetta, get ég í­myndað mér, dá­lítil líf­lína í gegnum Co­vid. Þá er ég ekki að tala um fjár­hags­lega heldur bara and­lega, af því þetta er náttúr­lega fólk sem er vant að spila 6-7 sinnum í viku og svo allt í einu datt það bara út. Allar jarðar­farir, öll brúð­kaup og slíkt datt út á þessum tíma en Skugga­baldur var opinn.“

Hvað verður um djass­senuna nú þegar helsta djass­búllan er að hverfa á braut?

„Ef ég væri tals­maður djass­senunnar þá gæti ég svarað því. Ég veit ekki hvað gerist en tón­listin er ekki að fara neitt. Þetta var náttúr­lega rosa­lega góður heima­völlur, það var rosa­lega gott að hafa hann og ég veit til þess að mörg verk­efni, margar nýjar hljóm­sveitir og hug­myndir urðu til á þessu stutta tíma­bili. Það er eitt­hvað sem lifir á­fram.“

For­sendur þess að reka djass­klúbb, sér­stak­lega eftir Co­vid, þær eru bara ekki til staðar.

Snorri bætir því við að hann voni að ein­hver annar taki við boltanum og gefi djass­senunni nýjan heima­völl.

Skugga­baldur var opnaður við Austur­völl í fyrra­sumar en veitinga­mennirnir Jón Mýr­dal og Guð­finnur Karls­son, gjarnan kenndur við Prikið, eiga staðinn saman. Þeir hafa greint frá því að til standi að selja reksturinn.

Gekk reksturinn ekki upp?

„For­sendur þess að reka djass­klúbb, sér­stak­lega eftir Co­vid, þær eru bara ekki til staðar. Þetta var mjög skemmti­leg til­raun og við stóðum með tón­listar­mönnunum í gegnum þennan heims­far­aldur en þetta bara gekk ekki upp,“ segir Snorri.