Þetta hljómar eins og einhvers konar sölumennska, þessi titill, en það er flestum ljóst að tónlist hefur margvísleg áhrif á mannskepnuna og í sumum tilvikum getum við notað hana sem meðferð eða í það minnsta sem viðbótarmeðferð. Vísindin hafa sýnt fram á að tónlist getur haft áhrif á tilfinningar, líðan, hegðun, hreyfigetu og þess utan á minni og einbeitingu þar sem hlutar heilans sem tengjast úrvinnslu og nálgun á þá þætti virkjast við hlustun.

Þrátt fyrir að við vitum nú enn meira en áður um þær tengingar sem eru í heilanum við hinar mismunandi stöðvar hans og þá sér í lagi boðefnakerfi heilans erum við enn á byrjunarstigi í nálgun okkar að nota tónlist sem meðferðarform. Víða hefur tónlist verið beitt í slökun og til að lina verki sem og einnig aukaverkanir af meðferð. Harvard-háskóli hefur birt gögn sem sýna fram á að tónlist getur minnkað þörf fyrir róandi og verkjalyf við aðgerðir og dregið úr kvíða svo eitthvað sé nefnt. Tónlistarmeðferð hefur einnig gagnast þeim sem hafa fengið heilaáfall og málstol vegna áverka í vinstra heilahveli þar sem málstöðvarnar eru. Er það gert með því að reyna að syngja og fara þannig fram hjá áverkanum. Söngur á uppruna sinn í hægra heilahveli og æfing með þessum hætti getur endurskapað máltilfinningu og tal.

Við þekkjum þá einnig að í minnistruflunarsjúkdómi glatast hæfileikinn til þess að njóta tónlistar og endurvekja minningar með þeim hætti að syngja mjög seint í sjúkdómsferlinu. Þess vegna geta sumir sjúklingar, t.d. Alzheimer-sjúklingar, munað heilu lögin og sungið með þó að þeir sé með öllu ófærir um að tjá sig skilmerkilega annars. Við þekkjum líka dæmi þess að tónlistarmeðferð virkar í sjúklingahópi þeim sem glímir við hreyfiraskanir líkt og Parkinson og viðlíka vanda. Þar byggist nálgunin á því að sá taugasjúkdómur skemmir með tímanum boðefnakerfi sem veldur verulegri truflun á samhæfingu sem svo glatast með tímanum, og eykur stífni og skjálfta. En þessum sjúkdómum fylgir líka mjög reglulega talsverður kvíði og depurð, sérstaklega þegar viðkomandi getur fylgt þróun sjúkdómsins sjálfur eftir.

Sýnt hefur verið fram á að tónlist dragi verulega úr andlegum einkennum þessa sjúklingahóps og hefur hún verið ráðlögð. Við vitum að rytmi er mikilvægur sem hluti af tengingu milli heyrnar og hreyfikerfa líkamans. Við getum til að mynda haft áhrif á þá sjúklinga með því að láta þá hlusta á tónlist sem þeim líkar og eiga þeir þá auðveldara með hreyfingu, bætt göngulag og samhæfingu. Með þessum hætti er hægt að viðhalda færni mögulega lengur og hafa áhrif á lífsgæði og líðan þessara sjúklinga.

Það má því segja að tónlistin hafi margvísleg áhrif, smekkurinn er misjafn og því er mikilvægt að átta sig á því hvað hreyfir við viðkomandi. Eins og við þekkjum öll eru minningar og tengingar við tónlist og atburði lífs mjög sterkar og hið sama gildir um gott lag sem einstaklingurinn er hrifinn af, það mun hreyfa við honum. Skilningur okkar er enn takmarkaður en það bætist í hann dag frá degi, ljóst er hins vegar að þarna eru vannýtt tækifæri í meðhöndlun sjúklinga sem við ættum að skoða frekar.