Danski tónlistarmaðurinn og tónskáldið Rune Thorsteinsson er staddur hér á landi til að taka þátt í Big Bang tónlistarhátíðinni sem haldin verður á Íslandi í fyrsta skipti. Hátíðin er listviðburður sem miðar að yngri áhorfendum og verður Hörpu breytt í eins konar tónlistarvölundarhús, með smiðjum, innsetningum og tónleikum.

„Ég hef farið á Big Bang Festival erlendis og þegar mér var boðið að koma hingað og taka þátt ákvað ég að slá til, enda þykir mér mjög vænt um landið og ræturnar mínar,“ segir Rune, en hann á ættir sínar að rekja til Íslands.

„Afi minn var frá Dalvík. Það er alltaf jafn dásamlegt að fara til Dalvíkur. Síðast þegar ég kom þangað tóku norðurljósin á móti mér og ég hugsaði með mér: Þetta er líkt og að forfeðurnir séu að bjóða mig velkominn,“ segir Rune og hlær.

Segir töfrana liggja í taktinum

Rune segir það alltaf jafn gott að koma hingað til lands, hér eigi hann ættingja sem hann hitti reglulega.

„Ég reyni alltaf að ferðast aðeins um landið í hvert skipti sem ég kem hingað. Ég keyri til dæmis oft að Skógafossi, því eitt af því góða við það að ferðast sem tónlistarmaður er að maður fær tækifæri til að sjá heiminn inn á milli verkefna.“

Þrátt fyrir að vera með aðsetur í Kaupmannahöfn hefur Rune verið á faraldsfæti síðustu 15 árin og hefur haldið tónleika vítt og breitt um heiminn, meðal annars í Asíu, Evrópu, Suður-Ameríku og Afríku. Að mæta á tónleika hjá honum sé þó örlítið frábrugðið því sem fólk á að venjast. „Ég blanda gjarnan saman tónleikum og smiðjum þar sem áhorfendur fá að taka virkan þátt í gjörningum.“

Á hátíðinni verður Rune með nýstárlegan tónlistargjörning. „Ég er búin að fara í þrjá grunnskóla í Reykjavík og kenna rúmlega 120 börnum að spila á múrbala.“ Þetta sé í raun bara risastór trommu-sinfónía sem hann sé að búa til ásamt börnunum.

„Ég gef þeim mismunandi merki, eins konar tónlistartáknmál, svo þau geti fylgt tónlistinni og mér sem stjórnanda. Síðan blöndum við þessu sláttarverki við píanó og trommur. Við viljum gefa börnum og áhorfendum innsýn í það hvernig það er að vera saman í takt. Þar gerast töfrarnir.“

Undraheimur tónlistar kynntur

Hann segir slíka tónleika gefa krökkum upplifun af því að æfa í takt, standa á sviði og flytja saman tónlist. „Eitt af markmiðunum er að kynna hljóðfæri og tónlist fyrir börnum og mögulega leiða þau inn í heim tónlistarinnar. Að þau fái innblástur og áhuga á tónlist og vilji í kjölfarið kannski læra á eitthvað hljóðfæri.“

Þegar kemur að slíku tónleikahaldi segir Rune tónleika á borð við þessa aldrei fyrir fram ákvarðaða. „Það er alltaf mikið kaos þegar unnið er með börnum, sérstaklega 120 börnum að tromma. Ferlið er í raun skapað eftir því sem líður á æfingar.“ Þannig eigi það að vera. „En svo smellur þetta allt saman á endanum og úr verður tónlistarveisla.“