Sigrún Harðardóttir rekur Suzukiskóla Sigrúnar. Hún var ung þegar hún heillaðist af fiðlunni og beið spennt eftir að fá að æfa eftir að hafa fylgst með systur sinni æfa sig.

„Systir mín, hún Eva Björg, lærði á fiðlu. Hún er sjö árum eldri en ég og hefur verið mikil fyrirmynd í mínu lífi og góð vinkona síðan ég man eftir mér. Ég fylgdist með henni spila á fiðluna heima síðan ég man eftir mér, fór með henni í fiðlutíma og lék eftir það sem hún var að gera. Ég fann mér til dæmis Legógirðingu og hárgreiðu og notaði það sem fiðlu fyrst um sinn. Mér fannst fiðlan bara alltaf svo heillandi og ekki skemmdi fyrir að stóra systir var alltaf að æfa sig,“ segir Sigrún.

Fiðlan í dúkkurúmið

Þegar hún var þriggja ára fékk Sigrún svo að byrja í fiðlutímum hjá Sigríði Helgu Þorsteinsdóttur, Suzuki-fiðlukennara.

„Ég á ekki margar minningar áður en ég byrjaði að læra, ein þeirra er þegar ég var að ræða við Sigríði Helgu um það hvort ég mætti ekki fara að byrja í tímum. Hún sagði mér að ég mætti byrja seinna um haustið. Mamma segir mér að þegar ég fékk loksins alvöru fiðlu þá vildi ég búa um fiðluna í dúkkurúminu, fannst afleitt að hafa hana ofan í kassa. Svo hefur fiðlan bara fylgt mér síðan,“ segir hún og hlær.

Sigrún hélt svo tónlistarnáminu áfram og fór í framhaldsnám við Listaháskóla Íslands og til Berlínar.

„Ég lauk svo meistaraprófi í fiðluleik frá University of Denver 2014 auk Suzuki-kennararéttinda. Ég spila mikið í hljóðveri fyrir ýmsa tónlistarmenn og svo hef ég verið að spila á tónleikaferðalögum með Ólafi Arnalds. Það hefur verið frábær reynsla og dásamlegt að fá að spila í svona mörgum stórkostlegum tónleikasölum eins og í Óperuhúsinu í Sydney og Elbphilharmonie í Hamborg,“ segir Sigrún.

Tónlistin sameinar

Hún segir margar rannsóknir hafa sýnt fram á að tónlistarnám hafi góð áhrif á heilann, almennan þroska og styðji við annað nám, sérstaklega tungumál og stærðfræði.

„Svo er tónlist svo dásamlega falleg, hún er alheimstungumálið okkar og við tengjum öll við tónlist á einn eða annan hátt. Margir leita í tónlist til að róa huga og taugar eða auka einbeitingu, aðrir spila hressandi tónlist til að koma sér í framkvæmdagír. Tónlistin sameinar okkur öll og tónlistarnám er aldrei af okkur tekið. Fyrir mig persónulega finn ég hvað tónlistarnámið hefur hjálpað mér að halda einbeitingu, vera skipulögð og öguð í vinnubrögðum, en líka vera tilfinningalega næm.“

Meðfram þessu hefur Sigrún kennt á fiðlu í hinum ýmsu tónlistarskólum síðastliðin tólf ár.

„Síðastliðið haust stofnaði ég minn eigin skóla, Suzukiskóla Sigrúnar. Þar hef ég verið að kenna á fiðlu nemendum frá þriggja ára aldri, en er einnig með námskeið fyrir alveg niður í þriggja mánaða og foreldra þeirra. Það eru Bambaló-tónlistartímarnir,“ segir hún.

Ekki síður fyrir foreldra

Bambaló-tímarnir eru fyrir börn á aldrinum þriggja mánaða til fimm ára og foreldra þeirra.

„Þeim er skipt í aldurshópa, ungbarnatímarnir eru aðeins rólegri, eins árs börn til þriggja ára læra fleiri lög og fá að spila á alls konar hljóðfæri. Þriggja til fimm ára hópurinn er síðan aðeins fjörugri. Tímarnir eru byggðir meðal annars á kennsluaðferðum Suzuki og ýmsu sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina úr leiklist, tónlist og kennslu. Námið undirbýr börnin fyrir frekara tónlistarnám, en þessir tímar eru ekki síður hugsaðir fyrir foreldra til að læra eitthvað skemmtilegt að gera heima með börnunum sínum, leika og verja tíma saman. Gera eitthvað sem er skemmtilegt og uppbyggilegt og getur vonandi komið í staðinn fyrir að grípa í spjaldtölvu eða sjónvarp.“

Hún segist meðvituð um að dagskrá hjá fjölskyldum geti verið breytileg milli vikna og oft erfitt að skuldbinda sig í nokkrar vikur á námskeið.

„Þess vegna ákvað ég að hafa Bambaló-tímana opna, fólk getur skráð sig í staka tíma og keypt klippikort með afslætti sem gildir í eitt ár. Tímarnir eru byggðir upp svipað, það er mikið um endurtekningu. Börnum svo gaman að endurtaka það sem þeim finnst skemmtilegt. Sumir hafa komið oft og eru öruggari en aðrir. En öll læra þau af þessu, líka hvert af öðru,“ segir hún og brosir.