María Magnúsdóttir, sem kemur fram undir sviðsnafninu Mimra, sendir fljótlega frá sér nýja stuttskífu. Þar mun nýjasta lagið hennar, Easy to Choose, meðal annars hljóma. „Ég er ekki búin að negla útgáfudaginn, það er ómögulegt að negla tónleika núna,“ segir Mimra um útgáfu plötunnar Finding Place.

„Ég kláraði hana seinasta haust og gaf út tvö lög fyrir jólin,“ heldur hún áfram en Easy to Choose bættist við fyrir viku og er aðgengilegt á streymisveitum.

„Þetta er hugljúft og kósí ástarlag,“ segir hún. „Trompetarnir gera þetta tímalaust, það er svona djassblær yfir því.“

Samið til brúðhjóna

Lagið á sér sérstaka sögu. „Ég samdi lagið fyrir þremur árum þegar vinkona mín bauð mér í brúðkaup,“ segir María. „Hún var að fara að giftast manninum sínum og átti heima í Amsterdam.“

María var búin að afboða sig í brúðkaupið, en ákvað síðan að koma. „Ég ákvað að koma óvænt. Ég og önnur vinkona mín, sem er tónlistarkona, sömdum sitt hvort lagið til brúðhjónanna og fluttum það fyrir þau þegar þau giftu sig.“

Brúðurin, Sylvía Hlynsdóttir, er trompetleikari. „Hún gerði síðan brassútsetningu við lagið. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við störfum saman en hún vann með mér á fyrri plötunni.“ Hún bætir við að lagið sé í dag algjört lag þeirra hjóna.

Stórar útsetningar

María hefur gefið út tónlist frá 2009 og hefur notað listamannsnafnið Mimra frá árinu 2015. „Það byrjaði sem mitt hugarfóstur, að semja orch­estral popptónlist. Ég var að hugsa um stórar útsetningar á fiðlum og strengjum og brassi. Það kemur vel fram á fyrstu plötunni minni frá 2017 sem heitir Sinking Island.“

María segir nýju plötuna fara meira út í dökkan poppstíl en hún vann hana með Stefáni Erni Gunnlaugssyni pródúser.

„Ég er að kenna tónlist og kem einnig fram sem söngkona, þá undir mínu nafni, María Magnúsdóttir. Er þá meira að syngja djass og svoleiðis. En öðru hverju brýst þetta tónlistarsjálf út. Það er algjörlega hugarfóstrið og allt sem ég er að semja og skapa kemur út í gegnum Mimru.“

Hún segir að útgáfutónleikar séu á dagskrá og þá fari allt í gang.

„Vonandi þarf maður ekki að fresta því mikið. Þetta kemur allt í ljós.“