Pétur Óskar Sigurðsson er hvorki við eina fjölina felldur í listinni né lífinu, eða huganum öllu heldur, þar sem margar raddir óma og ólíkar persónur takast á í litrófi hins görótta jurtaseyðis ayahuasca frá Suður-Ameríku.

Þessa dagana leikur Pétur Óskar tveimur skjöldum, annars vegar sem tónlistarmaðurinn Oscar Leone og er síðan sjálfur á fullu við leikæfingar í Tjarnarbíói.

„Það er svolítið brjálað að gera hjá mér núna og það er alveg eitthvert erfitt tripp í gangi. Tár og eitthvað kjaftæði sem minnti mig á af hverju ég er að þessu,“ segir Pétur Óskar um endurkomu Oscars Leone sem rauf nokkurra mánaða þögn á Valentínusardaginn með laginu Take the Seasons á Spotify og YouTube.

Mjúkur Eastwood

„Þetta er ástarlag, samið um gamla kærustu og viðskilnað okkar,“ segir Pétur og bætir við að ekki sé allt sem sýnist þótt Oscar Leone beri sig svolítið eins og kúrekatöffari í anda Clints Eastwood. „Ég ákvað hann ekki. Hann kom sjálfur og er bara sjálfstæð eining og ég held að ég sé miklu frekar að tjá mig með honum frekar en að fela mig bak við hann.“

Oscar Leone er náttúrlega ég en líka ákveðin týpa, nettur en samt leyndardómsfullur líka. Hann er í mótun en að þróast í þessa átt og er alltaf með hatt. Hann er líka svona Clint Eastwood-týpa skilurðu? En lögin eru ekkert hörð sko,“ segir Pétur og bætir við að í lögunum megi jafnvel greina kvenlega mýkt.

„Ég held að ég sé settur saman úr mörgum persónuleikum og hann slapp aðeins út úr búrinu þegar Superstar kom út í fyrra,“ segir Pétur um fyrsta lagið sem hann sendi frá sér sem Oscar Leone við ágætis undirtektir auk þess sem myndband Egils Einarssonar við lagið var á dögunum tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Sækadelik tripp

Þegar Pétur er spurður hvort tónlist Oscars Leone sé kántrý segir hann að þrátt fyrir hattinn sé erfitt að skilgreina hana. „Ég held líka að það sé lítill David Bowie eða Freddie Mercury inni í mér að reyna að komast út. Ég held þetta sé byrjunin á einhverju svoleiðis rugli. Þá ekki endilega þeirri tónlist en samt einhverri þannig vitund.“

Vitund? Ertu þá á krónísku nýaldarsýrutrippi eða hvað?

„Já, það má eiginlega segja það,“ segir Pétur og byrjar síðan að því er virðist að tala tungum: „Þetta er einhver blanda af coyote sækadelik ayahuasca-trippi og akkúrat núna er ég að fatta að það er mjög mikið tripp að vera bara í þessu lífi. Hérna. Núna. Það er besta trippið.“

Höfuðlausn

Hvað er eiginlega þetta ayahuasca ? Er þetta eitthvert sveppaseyði?

„Já, þetta er bara svona sækadelik. Þetta er svona frá guðunum sko, frá Perú í Amazon og þar. Þetta tekur mann út úr hausnum á sér. Af því að við erum alltaf svo föst í hausnum og þetta fer um líkamann og hreinsar líka upp gömul særindi.“

Þannig að þetta byggir á gömlum grunni og sterkri hefð?

„Já, mikið til. Þetta nær langt aftur í aldir sko og maður gerir þetta bara með shamönum,“ segir Pétur og vísar til handleiðslu andalækna sem þykja kunna að fara með seyðið, sem inniheldur efni sem eru ólögleg á Íslandi.

„Maður er berskjaldaður og ég er alltaf jafn þakklátur þegar ég kem aftur til sjálfs mín en stundum finnst mér ég vera verkfæri sem guðirnir tala í gegnum. Þetta hljómar eins og ég sé alger geðsjúklingur en það er eitthvað svoleiðis í gangi hjá mér.“

En það er engin hætta á að þessar raddir fari að segja þér að drepa fólk eins og í bíómyndunum?

„Nei, þetta eru góðar raddir. Ég hef verið á krossgötum þar sem ég þurfti að velja og þá valdi ég alltaf ástina. Við erum öll gerð úr því sama og hugsum öll myrkar hugsanir og efumst um sjálf okkur. Við verðum að sættast við það,“ segir Pétur Óskar sem er stundum Oscar Leone.