Norrænir músíkdagar verða haldnir í Reykjavík 21.-23. október 2021. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um þátttöku í hátíðinni, en hægt er sækja um til 17. júlí næstkomandi. Undirbúningur fyrir hátíðina er í fullum gangi, en Tinna Þorsteinsdóttir er listrænn stjórnandi hennar.

„Norrænir músíkdagar er ein af elstu, samfelldu klassísku tónlistarhátíðum í heimi, var fyrst haldin árið 1888. Stundum hafa liðið nokkur ár á milli þess sem hún hefur verið haldin. Hún skipar veigamikinn sess í tónlistarsamfélagi Norðurlandanna og er mikilvæg, bæði fyrir tónskáld að fá verkin sín flutt og fyrir tónlistarflytjendur. Eigi ómerkari tónskáld en Sibelius og Nielsen hafa stjórnað verkum sínum á hátíðinni. Norðurlandaráð tónskálda stendur fyrir hátíðinni, en Tónskáldafélag Íslands sér um alla skipulagningu fyrir Íslands hönd. Norðurlöndin fimm skiptast á að halda hana og hún fer fram á fimm ára fresti á Íslandi. Fyrst var hún haldin hér á landi árið 1954,“ segir Tinna. „Áherslan er á samtímatónlist í klassíska geiranum, en þar hafa í gegnum tíðina verið alls kyns straumar og stefnur. Hátíðin leitast við að endurspegla hvað er að gerast hverju sinni og miðlar því til samfélagsins.“

Tónlistin bregst við

Þema hátíðarinnar er Impact – áhrif. „Ég ákvað að hafa þema um það hvernig tónlistin getur tekist á við það sem er að gerast í heiminum í dag. Það er mikil pólarisering í gangi og þá er spurning hvort tónlistin eigi hugsanlega að taka afstöðu í umræðunni hverju sinni, og ef hún tekur afstöðu hvernig á hún þá að gera það?“ segir Tinna. „Tónlistin hefur alltaf tekið afstöðu, sem dæmi má taka 68-kynslóðina. Tónlistin hefur líka risið upp gegn því sem hefur verið stefna þá stundina. Þannig hefur tónlistin brugðist við því sem er að gerast hverju sinni.“

Hátíðin stendur í þrjá daga og fjöldi erlends tónlistarfólks mun mæta á hátíðina, auk íslenskra listamanna. Tinna segir að sérstök áhersla verði á frumflutt verk. „Við reiknum með að um 100 tónskáld eigi verk á hátíðinni og það verður krökkt af tónleikum. Við erum líka að vinna með ungu fólki sem ekki hefur samið tónverk áður og fáum það til að semja.“

Meðal flytjenda á Norrænum músíkdögum á næsta ári má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Schola Cantorum, Ensemble Adapter og Caput. Orgel Hallgrímskirkju með midi-útbúnaði kemur við sögu á hátíðinni, en Tinna segir það bjóða upp á óendanlega möguleika til flutnings. Hljóðfærasýning verður í Hörpu með nýjum hljóðfærum, á þremur hæðum.