Tónlistarhátíðin Vírdós fer fram í þriðja sinn dagana 29.-31. ágúst næstkomandi á Höfn í Hornafirði. Auk hefðbundinna tónleika verður boðið upp á hljóðfærasmíði, hljóðfærasýningar, blúsdjamm og alls kyns óvenjulega tónlistarviðburði, meðal annars í gamalli skreiðarskemmu.

„Það verður ýmislegt í boði í ár,“ segir Vilhjálmur Magnússon, forstöðumaður Vöruhúss og Fab Lab smiðju Hornafjarðar. „Fyrir utan tónlistarviðburðina nýtum við alls konar furðuleg hljóðfæri á ýmsan hátt. Á fimmtudaginn verður líka skemmtilegur viðburður á rakarastofu hérna í bænum og þar verða haldnir litlir tónleikar á meðan það er verið að klippa fólk. Hátíðin endar svo á viðburði á stórum skemmtistað sem heitir Hafið, en þar verður Dikta aðalnúmerið.“

Á fimmtudaginn verða haldnir litlir tónleikar á meðan verið er að klippa fólk á rakarastofu í bænum. Það verður örugglega fínt að fara í klippingu þá.

Hátíðin á rætur að rekja til Fab Lab hönnunarsmiðjunnar í Vöruhúsinu á Hornafirði, en þar var fyrst haldið námskeið í hljóðfærasmíði fyrir um fjórum árum. Í kjölfar þess var svo stofnuð hátíð utan um verkefnið.

„Í Fab Lab hönnunarsmiðjunni eru alls konar verkfæri en í sama húsi er líka aðstaða fyrir hljómsveitir til að æfa,“ segir Vilhjálmur. „Þegar smiðjan kom upp byrjaði fólk að búa til hljóðfæri. Fyrst voru það aðallega einfaldir vindlakassagítarar en svo þróaðist þetta yfir í mjög tæknileg hljóðfæri með alls kyns skynjurum og hvað eina, þannig að þetta varð sífellt vandaðra.“

Vilhjálmur segir að þeir sem standi að hátíðinni hafi smíðað ýmis öðruvísi hljóðfæri einfaldlega til að skapa og búa til eitthvað nýtt, en tilgangurinn með hátíðinni sé að stuðla að frumleika í tónlist.

„Það er til dæmis einn gítar sem er með innbyggða hreyfiskynjara sem nema hreyfingu við hálsinn. Hljóðið breytist svo eftir því hvernig hendurnar fara yfir skynjarana. Svo er plexíglersgítar sem nemur hljóð og breytir um lit í takt við það,“ segir Vilhjálmur. „Í vetur unnum við líka með RÚV að gerð sjónvarpsþáttanna Verksmiðjan 2019, þar sem Daði Freyr smíðaði LED-keytar, sem er blanda af hljómborði og rafmagnsgítar. Þegar þú spilar á hann birtast alls konar ljós á LED-skjá.

Hljóðfærin er misjafnlega flókin en sum eru mjög tæknileg.

Hér er líka mikil blúsmenning, því hér hefur lengi verið haldin blúshátíð. Eitthvað af gítörunum eru slædgítarar og þeir nýtast vel í blúsinn, sérstaklega vindlakassagítararnir,“ segir Vilhjálmur. „Á hverri hátíð erum við með hljómsveitir sem spila á þessi hljóðfæri og við hvetjum líka sveitir sem koma annars staðar frá til að spila á eitthvað af þessum nýstárlegu hljóðfærum. Við viljum að minnsta kosti kynna þennan möguleika fyrir þeim.“

Vilhjálmur segir að upphaflega hafi innblásturinn að svona „heimagerðum“ hljóðfærum komið frá blústónlistarmanninum Seasick Steve, en hann sló í gegn á gamals aldri og spilar sjálfur á ýmis óhefðbundin hljóðfæri.

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr smíðaði þennan LED-keytar í Fab Lab smiðjunni fyrir sjónvarpsþáttinn Verksmiðjan 2019.

„Hann á haug af skemmtilegum græjum og er með einstakt sánd. Hann er mikið „idol“ hjá okkur,“ segir Vilhjálmur. „Svo býður Fab Lab smiðjan bara upp á marga skemmtilega möguleika og gerir fólki kleift að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd, sama hversu flóknar þær eru. Við höfum svo líka blandað þrívíddarprentun við vinnuna og það býður upp á skemmtilega nýja möguleika, bæði hvað varðar útlit og virkni hljóðfæranna.

Í tvö ár var boðið upp á diplómanám í stafrænni hönnun í Fab Labinu og þaðan komu tvö lokaverkefni sem voru gítarar sem gríðarlega mikið var lagt í. Þeir urðu öðrum líka innblástur,“ segir Vilhjálmur. „Þegar við sátum svo uppi með fullt af hljóðfærum var ákveðið að halda sýningu og hátíð.“