Tónlistarkonurnar Katrín Helga Andrésdóttir, einnig þekkt sem Special K, og Farao, eða Kari Jahnsen, halda tónleika á Gauknum í kvöld í tilefni af Extreme Chill Festival sem fram fer um helgina. „Við munum frumflytja tónlist sem við sömdum á síðustu níu dögum, aðal áherslan í tónlistinni eru líkamsræktartextar með smá perra undirtónum,“ segir Katrín í samtali við Fréttablaðið.

Katrín og Kari voru nýlega ráðnar af Extreme Chill til að semja verk sérstaklega fyrir hátíðina. „Við bjuggum þetta allt til á ótrúlega stuttum tíma og erum mjög stoltar af því sem við náðum að áorka á þessum níu dögum.“ Katrín lýsir því að hún hafi sótt Kari út á Leifsstöð og í kjölfarið keyrt með hana áíGufudal á Barðaströnd.

Kari Jahnsen og Katrín Helga munu dansa við sovéskan trommusláttur í kvöld.

Einangraðar með draugunum

„Það er alveg úti í rassgati, ekkert internet og klukkutími í Reykhóla, sem er næsti bær.“ Katrín segir einangrunina hafa verið kærkomna fyrir sköpunarferlið þar sem stöllurnar unnu nánast óslitið frá morgni til kvölds. „Það voru bara við, draugarnir og tónlistin.“

Þá tókst tónlistarkonunum að búa til 35 mínútna pakkaða dagskrá sem þær munu flytja í kvöld. „Þetta eru átta lög, átta myndbönd við lögin og æfður dans,“ segir Katrín sem furðar sig á því að þeim hafi tekist að koma svo miklu í verk.

Sovéskur leikfimisdans

„Kari hefur sérhæft sig svolítið Sovét diskó tónlist svo ég stakk upp á að við myndum klippa saman efni úr sovéskum bíómyndum.“ Það kom síðan á daginn að Kari átti heilt safn af sovéskum sjónvarpsleikfimi. „Þannig við erum með margra klukkutíma efni af sovéskum aerobics, sem er aðal uppistaðan í bæði myndböndunum og dönsunum sem við erum búnar að búa til.“

Efnið er að sögn Katrínar ólíkt því sem hún hefur gert áður. „Þetta er ekki persónuleg tónlist á neinn hátt heldur meira í áttina af algeru partí.“ Tvíeykið treður upp á miðnætti í kvöld ásamt Tuma Árnasyni, saxófónleikara, og Ingibjörg Turchi, bassaleikara. „Það verður dans, partí og perraskapur í boði fyrir alla.“

Sjö tímum eftir tónleikana heldur Katrín í tónleikaferðalag um Evrópu.
Mynd/Berglaug