Tónleikahátíðin Músík í Mývatnssveit hefur verið haldin í rúm 20 ár og þá í dymbilviku. Af augljósum ástæðum var ekki hægt að halda hátíðina á þeim tíma þetta árið og hún er því með breyttu sniði. Í stað tvennra tónleika sem hafa verið á dagskrá hátíðarinnar verða einir tónleikar, í Skjólbrekku föstudaginn 7. ágúst kl. 20.00.

Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari er stofnandi hátíðarinnar og hefur haft veg og vanda af henni öll árin. Þetta árið kemur hún fram ásamt Oddi Arnþóri Jónssyni baríton og Elísabetu Waage sem spilar á hörpu.

Hljómur hörpunnar

Um efnisskrána segir Elísabet: „Við Laufey spilum sónötu eftir Schubert. Hún var upphaflega samin fyrir fiðlu og píanó en ég aðlagaði hana að hörpunni og fékk smáaðstoð til þess. Hljómur hörpunnar hæfir Schubert mjög vel.

Á tímum Schuberts hljómaði píanóið líka allt öðruvísi en í dag. Hljómurinn var ekki eins stór og mikill. Sumir einleikarar og einsöngvarar tala um að það geti verið erfitt að spila og syngja á móti píanóinu, það sé svo voldugt að ekki sé hægt að syngja eða spila mjög veikt. Með hörpunni er þetta auðveldara. Okkur þykir þessi sónata ekki njóta sín síður með hörpu en slaghörpu.“

Eftir að sónata Schuberts hefur hljómað leika Elísabet og Laufey útsetningar eftir Tryggva Baldvinsson á íslenskum sönglögum og þjóðlögum fyrir fiðlu og hörpu.

Kómísk ljóð og lög

Eftir hlé syngur Oddur sönglög eftir Schubert, Gesänge des Harfners, Söngva hörpuleikarans, við ljóð eftir Goethe. „Ekki mjög glaðlegir textar sem fjalla um einmanaleikann,“ segir Elísabet. „Oddur syngur síðan aríu úr Tannhäuser eftir Wagner og svo verða flutt þrjú þekkt sönglög eftir Árna Thorsteinsson: Nótt, Rósin og Fögur sem forðum. Við endum á lögum eftir Tryggva Baldvinsson sem hann samdi við ljóð úr Heimskringlu eftir Þórarin Eldjárn. Bæði ljóðin og lögin eru kómísk.“

Elísabet tekur nú þátt í Músík í Mývatnsveit í þriðja sinn. Hún segir upplifunina dásamlega. „Skjólbrekka er mjög skemmtilegt tónleikahús, hljómurinn er góður og í húsinu er notalegur andi. Mývetningar eru greinilega tónlistaráhugafólk og mæta vel á tónleikana. Það er óskaplega gaman að vera í Mývatnssveit og fegurð sveitarinnar mikil.“