Flamenco-sýning verður í Salnum Kópavogi laugardaginn 25. maí og sunnudaginn 26. maí, klukkan 21. Fram koma dansarar, söngvarar og hljóðfæraleikarar frá Granada. Hópurinn verður einnig með masterclass í Salnum á laugardag klukkan 15. Einn Íslendingur er í hópnum, gítarleikarinn Reynir Hauksson.

Tóntegundir og ákefð

Reynir er spurður hvenær hann hafi fengið áhuga á flamenco. „Ég held að ég hafi haft þennan áhuga alla mína ævi. Allir þeir þættir sem ég kann svo vel við í tónlist eru til staðar í flamenco, þessir forvitnilegu ryþmar og tóntegundir og ákefðin í flutningnum. Þetta er það sem hrífur mig við flamenco. Þegar ég bjó í Noregi kynntist ég spænskri konu og um leið opnuðust dyrnar að Spáni. Ég flutti til Granada og er búinn að vera þar í þrjú ár.“

Irene la Serranilla er annar af tveimur dönsurum sýningarinnar.

Flytjendurnir sem koma fram í Salnum eru Reynir sem leikur á gítar eins og Jorge el Pisao, söngvarinn Jacób de Carmen og dansararnir Irene la Serranilla og Paco Fernández. „Þau hafa starfað lengi saman en ég er búinn að vera þarna skemur og flest eru þau fædd og uppalin í Granada,“ segir Reynir. „Ég kynntist Jacób fyrir ári, hann kom með mér til Íslands í fyrra og við settum upp sýningar víða um land. Þegar ég var að undirbúa sýningu fyrir næsta hóp á Íslandi mælti Jacób með þessum listamönnum. Við Jacób vinnum töluvert saman á Spáni, ég spila mikið undir hjá honum og eins spila ég undir í dansakademíu sem kvendansarinn, Irene, er með úti á Spáni.“

Masterclass í Salnum

Jacób er spurður hvernig honum finnist Íslendingar hafa tekið flamenco. „Miðað við viðbrögðin á sýningunum í fyrra finnst mér Íslendingar vera mjög hrifnir af flamenco og bera jafn mikla virðingu fyrir þessu listformi og gert er á Spáni, ef ekki meiri. Íslendingar eiga klassíska tónlistarmenn og djassista á heimsmælikvarða en flamenco-tónlist er ekki mikið flutt hér. Flamenco gæti blómstrað á Íslandi ef viðburðum eins og þeim sem við flytjum verður haldið áfram, í kjölfarið gæti orðið meiri vitneskja um flamenco,“ segir hann og bætir við: „Flamenco kemur frá Andalúsíu. Þetta er tónlist hins vinnandi manns, fólks sem í sínu daglega amstri klappar taktinn, syngur og dansar.“

Hópurinn verður með masterclass í Salnum á laugardag klukkan 15. „Við munum tala um flamenco, sögu þess og hvaðan það kemur, ryþmana sem eru mjög forvitnilegir og hvernig þeir eru taldir. Þarna mun fólk líka geta fengið danskennslu, gítarkennslu og söngkennslu,“ segir Reynir.

Kristinn R. Ólafsson verður kynnir á tónleikunum í Salnum á laugardags- og sunnudagskvöld. „Ég hafði samband við hann á Facebook og hann sagði mér að fyrir tilviljun væri hann að koma viku seinna til Granada. Við mæltum okkur mót, ég spilaði fyrir hann og við spjölluðum saman. Hann tók vel í að vera kynnir og fannst skemmtilegt að ég væri að koma með flamenco til Íslands,“ segir Reynir.