Gabríel Ólafs er tónskáld sem verður 23 ára síðar á árinu. Hann var uppgötvaður þegar hann var 19 ára og þrátt fyrir stuttan tónlistarferil hefur hann vakið mikla athygli utan landsteinanna og verið kallaður undrabarn í erlendum fjölmiðlum, klófest plötusamning hjá erlendu útgáfufyrirtæki og gefið úr þrjár útgáfur af fyrstu breiðskífu sinni. Lögin hans hafa líka verið spiluð tugmilljón sinnum á streymisveitum, en vinsælasta lagið hans hefur fengið yfir 10 milljón spilanir, bara á Spotify.

Gabríel féll snemma fyrir því að búa til sínar eigin melódíur á píanóið og var mikill kvikmyndaáhugamaður þegar hann var barn, sem leiddi hann út í að verða tónskáld. Hann hefur mikinn áhuga á að gera kvikmyndatónlist, en er líka að undirbúa útgáfu á annarri breiðskífu sinni, sem er mjög metnaðarfull og kemur út síðar á þessu ári eða snemma á því næsta.

LOTR hafði mikil áhrif

„Það er rétt að það er óvenjulegt að vera svona ungur í þessum geira. Það er yfirleitt fólk sem er tvöfalt eldra en ég sem starfar við svona tónsmíðar,“ segir hann. „Ég byrjaði að spila á píanó þegar ég var fimm ára og fór í klassískt nám og lærði líka jazzpíanóleik í FÍH. Ég varð snemma ástfanginn af því að spila eftir eyranu og hef alltaf gert það mikið. Ég er líka ekki sá besti í að lesa nótur, svo ég var enginn draumanemandi í klassískri tónlist, en ég kláraði námið samt.

Gabríel hefur nokkur markmið í tónlistinni. Hann langar að gera tónlist fyrir kvikmynd, skapa heilsteypt meistaraverk og hafa nýjan og ferskan hljóm á öllum plötunum sínum. FRÉTTABLAÐIÐ/HEIÐA

Ég hef líka alltaf elskað tónlist og hlustað mikið á hana og þegar ég var lítill horfði ég mjög mikið á kvikmyndir,“ segir Gabríel. „Það var stórt augnablik fyrir mig þegar ég sá Lord of the Rings-kvikmyndirnar í fyrsta sinn, því tónlistin í þeim er svo mögnuð.“

Uppgötvaður á netinu

„Mér fannst snemma ótrúlega spennandi að ég gæti gert mínar eigin melódíur og samdi mitt fyrsta píanóverk þegar ég var 12 ára. Svo hélt ég áfram að semja og flutti svo eitt af lögunum mínum í sjónvarpi. Það var lagið Absent Minded, sem ég samdi þegar ég var 14 ára,“ segir Gabríel. „Í kjölfar þess höfðu nokkrir útlendingar samband við mig og hjálpuðu mér að gefa tónlistina mína út erlendis og þetta lag, sem endaði með því að vera titillag fyrstu plötunnar.“

Þessir útlendingar voru engir nýgræðingar í tónlistarbransanum, en það voru fulltrúar breska útgáfufyrirtækisins One Little Indian, sem gefur út tónlist Bjarkar, Ásgeirs Trausta, Emilíönu Torrini, Samaris, Fufanu og fleiri hæfileikaríkra Íslendinga. Þeir höfðu fallið fyrir tónlist Gabríels á Youtube og Soundcloud.

„Þessari fyrstu plötu hefur gengið betur en ég bjóst við. Ég held að hún sé komin upp í 30 milljón streymi milli allra streymisveitna,“ segir Gabríel. „Svona tónlist eins og mín er nokkuð vinsæl á netinu og það er bara frábært. Í gegnum útgáfufyrirtækið hef ég líka fengið hjálp við að skilja hvernig bransinn virkar.

Ég er svo búinn að vera að semja miklu meira undanfarið og læra ótrúlega mikið af verðmætum hlutum, sérstaklega um hljóðupptökur, hljóðblöndun og hvernig er hægt að vinna tónsmíðar,“ segir Gabríel. „En svo kom Covid fljótlega inn. Ég var á leiðinni í fyrsta alvöru tónleikaferðalagið mitt, um Evrópu og Rússland, en því var aflýst vegna faraldursins. En það hefur verið í lagi, því ég hef getað eytt meiri tíma í hljóðverinu að semja og mér líður best þar.“

Þrjár útgáfur af sömu plötunni

Það hafa komið þrjár útgáfur frá Gabríel til þessa. Þær heita Absent Minded, Absent Minded Reworks og Piano Works og eru í raun þrjár útgáfur af sömu plötunni.

„Absent Minded kom fyrst, svo er Piano Works „live“ plata, þar sem ég spila aðrar útsetningar af lögunum á píanó. Ég fór með vini mínum, hljóðmanninum Bergi Þórissyni, í stúdíói eitt kalt vetrarkvöld og við tókum upp heila plötu á einni nóttu og notuðum gamalt upprétt píanó sem hefur mjög sérstakan og flottan hljóm,“ segir Gabríel. „Henni hefur gengið mjög vel á netinu.

Gabríel hefur nokkur markmið í tónlistinni. Hann langar að gera tónlist fyrir kvikmynd, skapa heilsteypt meistaraverk og hafa nýjan og ferskan hljóm á öllum plötunum sínum. FRÉTTABLAÐIÐ/HEIÐA

Svo var Reworks-platan alveg hrikalega skemmtilegt ferli, ég fékk að velja fólk hérna heima og erlendis til að gera sínar útgáfur af lögunum mínum. Þetta var samvinnuverkefni með öðrum tónskáldum og ég vann meðal annars með japönskum slagverksleikara, þýskum teknóhaus, tónskáldi frá New York, Katie Buckley, sem er uppáhaldshörpuleikarinn minn, og Ástu Soffíu, sem er einn besti harmónikuleikari Íslands,“ segir Gabríel. „Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt.“

Byggir á íslenskri ritlist

Gabríel fær innblástur úr ólíkum áttum.

„Það fer eftir verkefninu. Fyrsta platan er svolítið bara æskan mín, ég var að semja lögin gegnum árin og þetta er innhverf plata sem er innblásin af hversdagslegum hlutum,“ segir hann. „En nýja platan er með mjög sterkt „concept“ og byggð á íslenskri ritlist. Það er ákveðið íslenskt skáld og rithöfundur sem ég byggði plötuna á.“

Gabríel vill ekki gefa meira upp í bili, fyrir utan að viðkomandi sé ekki núlifandi.

„Ég er svolítið stoltur af fyrstu plötunni og þessum þremur útgáfum, sem eru í raun eitt verkefni. En ég er ótrúlega stoltur af plötunni sem ég er búinn að klára og ég get ekki beðið eftir að gefa hana út,“ segir Gabríel. „Ég fékk þann heiður að vinna hana með ótrúlega flottum íslenskum hljóðfæraleikurum og hún er tekin upp í sölum Hörpu, sem hafa óaðfinnanlegan, heimsklassa hljóm. Mér finnst skemmtilegt að fyrsta alþjóðlega útgáfan mín verði í raun rammíslensk.

Það er enn þá meiri kvikmyndatónlistarhljómur á henni, sterkar melódíur og dekkri tónar en áður. Ég myndi segja að hún hljómi þroskaðri,“ segir Gabríel. „Mér skilst að það verði búið að gefa út hluta af henni núna í haust, en sjálf platan verði ekki komin í heild fyrr en rétt eftir áramót.“

Vill hafa ferskan hljóm

Gabríel er mjög metnaðarfullur tónlistarmaður sem hefur þrjú meginmarkmið í tónlistinni.

„Mig hefur alltaf langað að gera tónlist við góða kvikmynd og vera hluti af heildinni á bak við slíkt verk,“ segir hann. „Ég myndi segja að núna fyrst sé ég með öll verkfærin til þess og allar byssur hlaðnar. Ég bíð bara eftir rétta verkefninu. En kvikmyndagerð er ótrúlega flókið, dýrt og erfitt ferli og þess vegna vill fólk frekar setja svona verkefni í reyndari hendur. Ég er að bíða eftir að einhver sé til í að taka séns á einhverjum ungum og metnaðarfullum.

Svo er ég líka alltaf að eltast við að gefa út heilsteypt meistaraverk sem stendur á eigin fótum,“ segir Gabríel. „Kannski nær maður aldrei að vera svo sáttur við eigið verk, en á meðan ég hef gaman að því að gera tónlist er ég sáttur.

Mig langar líka að gera nýklassíska tónlist sem er aðeins öðruvísi en annarra. Á nýju plötunni kem ég með nýjan og ferskan hljóm og það vil ég gera á öllum plötunum mínum,“ segir Gabríel. „Ég vil ekki gera framúrstefnulega tónlist bara til að gera tilraunir, ég vil gera tónlist sem snertir við fólki og vekur tilfinningar, því mér finnst tilgangur tónlistar vera að vekja tilfinningar. Ég er að leita að þessari miðju, þar sem tónlistin er skemmtileg, fersk og áhugaverð á sama tíma og hún er kunnugleg.

Ég vil líka gera tónlist sem sem flestir geta heyrt. Það er skemmtilegt að heyra að fólk haldi upp á tónlistina manns, hún sé því kær eða hjálpi því. Það lætur mann vilja halda áfram,“ segir Gabríel. „Ég held vonandi bara áfram að gefa út plötur þangað til ég verð eldgamall.“

Vinnur með nýju íslensku tónlistarfyrirtæki

Gabríel er nú tónskáld í fullu starfi, sem er nýtt fyrir honum.

„Ég hef unnið sem pródúser, hljóðmaður og píanisti en núna er ég svo ótrúlega heppinn að vinna bara sem tónskáld og það er alsæla,“ segir hann, en Gabríel vinnur að tónlistarsköpun sinni í Hörpu. „Ég er að vinna með nýju þjónustufyrirtæki sem starfar í ýmsu tónlistartengdu og er búið að setja upp höfuðstöðvar hér og er alveg að fara að kynna sig, en ég má ekki segja meira í bili. Ég nýtti mér þjónustu þeirra við upptökurnar á plötunni og þessi þjónusta verður bráðlega í boði fyrir alla. Fyrirtækið hefur sett upp starfsemi í rými í Hörpu þar sem það tekur á móti tónskáldum eins og mér. Það er frábært að geta unnið þar.

Ég hef tekið græjurnar mínar þangað til að nota þær á nýju plötunni, meðal annars uppáhalds hljóðgervilinn minn, sem er uppáhalds hljóðfærið mitt fyrir utan píanóið. Þetta er ótrúlega sjaldgæfur Korg-hljóðgervill sem var í eigu Jóhanns Jóhannssonar og það kemur rosalega flott hljóð úr honum,“ segir Gabríel. „Það þarf að stilla hann eins og píanó og það kemur hljóð úr honum sem er miklu líkara órafmögnuðu hljóðfæri en hljóðgervil.“