Píanóleikarinn Alexander Edelstein hefur verið á tónleikaferðalagi um Norðurland. Hann heldur tónleika á Þórshöfn 17. júlí og 18. júlí spilar hann í Mývatnssveit. Áður hefur hann spilað á Dalvík og Siglufirði. Tónleikaferðalaginu lýkur á Akureyri 1. ágúst, í Akureyrarkirkju.

Ný og nýleg verk

„Á efnisskrá eru verk eftir norðlensk tónskáld, Atla Örvarsson, Daníel Þorsteinsson og Jón Hlöðver Áskelsson, auk verka eftir Schubert og Schumann. Þetta eru ótrúlega spennandi og skemmtileg verk,“ segir Alexander.

Verk Daníels Þorsteinssonar er splunkunýtt verk í þremur köflum. „Það er bæði rytmískt og lýrískt og það er afskaplega skemmtilegt að spila það,“ segir Alexander. „Verkið Dropar eftir Atla er á nýrri plötu með honum sem heitir You are here og tvö verk sem ég flyt eftir Jón Hlöðver eru úr flokknum Sex píanólög. Þannig að verkin eftir íslensku tónskáldin eru ný og nýleg.“

Allir tónleikarnir fara fram í kirkju. „Það er afar notalegt að spila í kirkju, þar skapast sérstök stemning,“ segir Alexander. „Ég hef góða reynslu af því að spila í kirkjum en fyrstu einleikstónleikar mínir voru einmitt haldnir í kirkju.“

Tónleikarnir eru styrktir af Eyþingi, Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.

Á leið til Svíþjóðar

Alexander er fæddur árið 1998 og hefur fengið verðlaun fyrir píanóleik sinn, þar á meðal verðlaun í EPTA keppninni. Hann er á leið til Svíþjóðar í lok ágúst þar sem hann fer í skiptinám við Konunglega Tónlistarháskólann í Stokkhólmi og verður þar eina önn. Hann stefnir síðan á að klára nám sitt við LHÍ næsta vor.

Alexander er að lokum spurður hvað heilli hann svo mjög við píanóleik. „Það er margt. Maður getur lært mikið af því að koma fram á tónleikum. Verkin eru heldur aldrei eins í flutningi, það breytist alltaf eitthvað í túlkuninni. Þannig eru engir tónleikar nákvæmlega eins, það gerist alltaf eitthvað nýtt.“