Kóralrifjum heimsins hefur lengi stafað hætta af hlýnun og súrnun sjávar og mikið er í húfi þar sem þau eru tilvistargrundvöllur fjölda tegunda sjávardýra, auk þess sem hrun í fiskveiðum er fyrirsjáanlegt njóti kóralanna ekki við.

„Ég er búinn að vera umhverfisverndarsinni frá því ég var polli. Fyrsta plata Ampop fjallaði náttúrlega bara um umhverfismál og ég er ákaflega stoltur af því að hafa verið valinn til þess að semja tónlist fyrir þetta risavaxna verkefni,“ segir tónskáldið Biggi Hilmars, um aðkomu sína að stærsta kóralbjörgunarverkefni heims sem kennt er við SHEBA Hope Reef.


Biggi var á árum áður þekktastur sem söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Ampop en hefur á síðustu árum fest sig rækilega í sessi sem höfundur tónlistar fyrir kvikmyndir og sjónvarp.

Hróður hans sem slíkur varð í raun til þess að hann var sérvalinn til þess að semja tónlistina við YouTube-myndbandið The Film That Grows Coral, eða Kvikmyndinni sem ræktar kóral, og er ætlað að efla fólki bjartsýni og dug og safna um leið liði og fé til baráttunnar fyrir verndun kóralrifjanna.

Vonin sem vex

„Það er von, en það er núna eða aldrei,“ segir Biggi, en lagið hans, Hope Grows, hefur verið fáanlegt á öllum streymisveitum í rúma viku. Biggi fylgdi útgáfunni síðan eftir á þriðjudaginn með frumsýningu tónlistarmyndbands við lagið.

Biggi segir lagið hafa gengið mjög vel fyrstu vikuna á vefnum. „Þannig að það er vonandi eitthvað að safnast í sarpinn,“ segir Biggi og bætir við að byrja eigi á því að endurheimta kóralrifið Salisi Besar, eða Vonarrifið, í Indónesíu en með auknum fjárstuðningi verði síðan fleiri og fleiri kóralrif tekin fyrir og endurheimt.

„Þetta verkefni er bara rétt að byrja og myndinni og tónlistinni er ætlað að safna fjármagni og hvetja önnur félög eða fyrirtæki, stór og smá, út um allan heim til að taka þátt. Allar tekjurnar af streymi þessa verks renna beint til þessara mála í gegnum náttúruverndarsjóðinn Nature Conservance.“

Þar sem hjartað slær

Framleiðslufyrirtækið Radford Music í London, sem sérhæfir sig í kvikmyndatónlist hvers konar, hafði gefið fyrri verkum Bigga gaum og kom að ráðningu hans.


„Þetta var svolítið ævintýri,“ segir Biggi sem var valinn úr hópi þekktra tónskálda. „Það vann alltaf með mér að ég var búinn að gera svo mikið tengt hnattrænni hlýnun og þau vissu að þetta er mér hjartans mál.

Það má segja að ég sé farinn að laða að mér verkefni sem snerta á hlýnun jarðar og þessi verkefni sem ég hef unnið að á seinustu árum hafa einhvern veginn bara svolítið komið til mín.“

Biggi rekur upphaf þess til sýndarveruleikamyndar um mannskæðan eldsvoðann í Grenfell-turninum í London 2017. „Þetta tilraunaverkefni heppnaðist svona rosalega vel og var eiginlega það fyrsta sem ég gerði sem skipti máli fyrir eitthvað sem mætti kalla göfugri málstað.“

Í kjölfarið fylgdi heimildarmyndin The Last Igloo sem fjallar í raun um bráðnun hafíssins og samfélag veiðimanna á Grænlandi sem er því á hverfanda hveli. Hann samdi einnig tónlistina fyrir sænsk-íslensku spennuþáttaröðina Thin Ice sem gerðist mikið til á Grænlandi með hnattræna hlýnun í brennidepli. Þá samdi Biggi nýlega tónlistina við heimildarævintýrið Arctic Drift sem fjallar um 50 vísindamenn sem ferðast á ísbrjóti á Norðurheimskautið og festast þar.

„Hingað til er ég nú búinn að vera meira að fást við Norðurheimskautið þannig að það var gott að komast á suðrænar slóðir og ég vonast bara til að það verði leitað til mín áfram og að ég sé orðinn þekktur sem gaurinn sem er tilbúinn að taka að sér svona verkefni,“ segir Biggi sem vinnur nú að sinni fjórðu sólóplötu.