„Ég var kallaður Tommi tímaskekkja þegar ég kom með plakötin inn í Tónastöðina,“ segir Óskar og hlær, þegar hann segir frá göngutúr sem hann skellti sér í á fimmtudaginn með bunka af auglýsingaveggspjöldum fyrir útgáfutónleika fimmtu breiðskífu sveitarinnar, Monuments, sem kom út í apríl.

„Það var nú alveg kominn tími á þetta,“ segir Óskar um tónleikana sem verða í Iðnó um næstu helgi.

„Við erum líka búnir að fresta þessu einu sinni og svona, þannig að þetta verður bara ógeðslega gaman. Að fá að fagna með fólkinu okkar hér heima,“ segir Óskar og bætir við að plakataferðin í fyrradag hafi verið sú fyrsta af nokkrum.

Bíða ekki við símann

„Þetta var fyrsta lotan af nokkrum. Ég held ég hafi hent upp svona átta plakötum. En það verður meira. Ég lét gera tuttugu þannig að það ætti nú að duga,“ segir Óskar sem pældi ekkert í því hvort hann þætti gamaldags við þessa iðju á samfélagsmiðlaöld.

„Ég pældi ekki einu sinni í því að þetta væri „old school“. Ég man eftir því að hafa gert þetta þegar við vorum kannski svona sautján ára og svo er bara aðeins lengra síðan maður var sautján ára en mann minnti. Þetta eru orðin rúm tíu ár,“ segir Óskar og hlær.

„Það var nú alveg kominn tími á þetta,“ segir Óskar um tónleikana.
mynd/aðsend

„Svo var maður að spyrja fólk hvort maður mætti hengja þetta upp og sumir ráku upp stór augu og maður, eins og ég segi, kallaður Tommi tímaskekkja,“ segir Óskar og samsinnir því að hann sé með báða fæturna á jörðinni þrátt fyrir velgengni Vintage Caravan.

„Það gerist ekkert nema maður geri það sjálfur. Margir bíða eftir símtölum og svona, en kannski er eitt af því sem einkennir okkur að við bíðum ekkert eftir símtalinu. Við bara hringjum og látum hluti gerast, förum niður í bæ og dreifum boðskapnum.“

Veisla í Iðnó

Talið berst aftur að útgáfutónleikunum í Iðnó næsta laugardag. „Okkur líður voðalega vel þarna. Það er einhver góður andi í húsinu,“ útskýrir hann og bætir við að öll platan verði spiluð.

„Og þetta er mjög krefjandi plata. Við tókum hana í heild sinni á Græna hattinum í september og það var mjög áhugavert og krefjandi að spila þessa plötu og ákaflega gefandi. Svo hendum við í alveg gott þrjátíu mínútna sett eftir hana.“

Tread Lightly mun hita upp fyrir Vintage Caravan og Óskar lofar rokkveislu.