Sigurður Þ. Ragnars­son er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Sigurður, oftast kallaður Siggi Stormur, vakti á sínum tíma mikla at­hygli fyrir létta fram­komu í veður­fréttum og að segja fréttir á manna­máli.

„Ég fann mjög fljótt löngun til að miðla þessu til fólks á manna­máli. En það var oft aftast í hausnum á manni þessi hugsun að maður væri jafn­vel að setja sjálfan sig niður með því að vera ekki of al­var­legur. En það er hægt að vera mjög sam­visku­samur, dug­legur og góður í starfinu sínu, án þess að vera alltaf eins og maður sé al­var­leikinn einn. En auð­vitað grínast maður ekki með veður­fréttir þegar veður eru vá­lynd.“

Hann segir í þættinum alls kyns sögur af ferlinum í sjón­varpi, meðal annars þegar byssa birtist við höfuð hans í beinni út­sendingu:

„Ég var að fara að segja veður­fréttirnar eins og gengur og gerist. Ég man að það var leiðinda­spá í kortunum þennan dag og á bak­við mig var græna teppið (greenscreen) sem veður­kortinu var jafnan varpað upp á og ég horfi á skjáinn þar sem ég sé sjálfan mig í hlut­föllum við veður­kortið.

Nema allt í einu sé ég mynd af byssu sem er miðað á hausinn á mér í staðinn fyrir veður­kortið. Pródu­sentarnir sem voru í eyranu á mér gátu ekki annað en farið að skelli­hlæja og ég fer að hlæja líka. En náði í milli­tíðinni að segja: „Spáin er reyndar ekki alveg svona slæm!!“

Siggi rifjar í þættinum upp tíma þegar fjölda fólks var sagt upp á Stöð 2, meðal annars hjónunum Sig­mundi Erni og Elínu Sveins.

„Það var svaka­legt hvernig var staðið að þessu. Mér er enn mjög minni­stæður þessi morgun þegar Simma og Ellu var sagt upp. Þau voru kölluð inn til sitt hvors yfir­mannsins í annarri byggingu í Skafta­hlíðinni og þar var þeim sagt upp klukkan 9 um morgun.

Svo þegar þau ætluðu að rölta upp á frétta­stofuna og segja fólki frá því að þau hefðu verið rekin, þá virkuðu ekki kortin þeirra og þau komust ekki inn á vinnu­staðinn sinn til að kveðja sam­starfs­fé­laga til fleiri ára. Þetta var ljót og ó­þörf fram­koma og nánast eins og það væri verið að niður­lægja þau. Þetta er öðlings­fólk og það þekkja allir sem hafa unnið með þeim og kynnst þeim. En á þessum tíma var margt mjög skrýtið hjá Stöð 2 og það var hálf­gerð ótta­stjórnun í gangi og allir stöðugt á varð­bergi.“

Sonur Sigurðar veiktist mjög snögg­lega al­var­lega í desember 2021. Hann var strax settur í öndunar­vél á gjör­gæslu. Síðan þá hefur hann meira og minna verið inni á spítala. Sigurður segir allt breytt eftir þetta.

„Þetta er hræði­leg lífs­reynsla og ég gleymi þessu aldrei. Ég var staddur í út­löndum þegar það hringir í mig kona frá gjör­gæslu­deildinni og segir mér að drengurinn minn sé kominn í öndunar­vél, sé í lífs­hættu og staðan sé al­var­leg. Við hjónin áttum flug nokkrum dögum síðar, en keyptum miða daginn eftir og komum.

Svo byrjar tími sem er þannig að fyrst tekur maður þetta allt á hnefanum og er bara í sjokki. Það er stans­laus kvíði í maganum, en síðan gerist það að þegar á­fallið fer að lengjast þá tærist maður smám saman að innan og maður fer að endur­hugsa allt varðandi lífið. Það sem manni fannst merki­legt áður skiptir mann nánast engu máli í dag. Hver einasti dagur snýst meira og minna um það hvaða fréttir maður muni fá í dag. Siggi segir allt ferlið hafa reynt gríðar­lega á alla í fjöl­skyldunni:

„Svo byrjar hann að verða betri, en svo kom bak­slag og svo annað bak­slag þar sem hann er aftur í öndunar­vél í þrjár vikur sam­fellt. Það var sá tími þar sem þráðurinn var hve stystur milli lífs og dauða. Þegar þetta stóð orðið mjög tæpt og það átti að rista kviðinn á honum upp úr og niðr­úr var mér alveg hætt að lítast á blikuna.

Ég hringdi í Tómas Guð­bjarts­son lækni og annarri eins perlu hef ég aldrei kynnst. Strákurinn minn á líf sitt honum að þakka. Það var hringt í okkur og okkur sagt að hann væri hrein­lega að fjara út þegar Tómas tekur af skarið og tekur á­kvörðun um að snúa honum á grúfu til að búa til pláss fyrir lungun. Þetta var mjög krítísk á­kvörðun og búið að vara okkur við að þetta væri bara 50/50 hvort hann myndi lifa af. En Tómas mat stöðuna svona og að­eins 30 mínútum síðar fór súr­efnis­mettunin að fara upp og ljóst að þetta var hár­rétt metið hjá honum. Ég er sann­færður um að með þessarri á­kvörðun bjargaði hann lífi barnsins míns.“

„Ég held að það sem lúrir fremst í hausnum á manni er spurningin hvort maður sé að fara að missa hann og það er hugsun sem ég get ekki hugsað til enda. Þannig að maður kemst að þeirri niður­stöðu að maður sé til­búinn að gera allt til að bjarga honum og við þekkjum það örugg­lega margir for­eldrar í þessarri stöðu að spyrja sig af hverju maður sé ekki frekar sjálfur í þessum sporum er barnið sitt. Hver einasti dagur gengur út á að hugsa um hvort allt fari ekki vel í dag, það er hugar­farið sem maður verður að halda í alla daga. En maður er auð­vitað beygður eftir þetta og margt sem þarf að vinna í.“