Ofurhjónin Tom Hanks og Rita Wilson hafa nú fengið evrópskt vegabréf en þau eru orðin grískir ríkisborgarar. Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands birti mynd á Instagram-reikningi sínum af sér ásamt stjörnuhjónunum með glænýja vegabréfið.

Hjónin og börn þeirra voru gerð að heiðursborgurum á Grikklandi á síðasta ári. Stjórnvöld á Grikklandi vildu þakka Hanks fyrir hlutverk hans í að vekja athygli á skógareldum sem geysuðu í nágrenni Aþenu í júlí árið 2018. Skógareldarnir voru þeir verstu í Grikklandi í áratugi og í það minnsta 100 manns létu lífið.

Wilson sem á ættir að rekja til Grikklands og Hanks sem er meðlimur grísku rétttrúnaðarkirkjunnar eru miklir aðdáendur Grikklands og hafa margoft sést þar í fríi. Hjónin eiga einnig eignir á eyjunni Antiparos.

„Ég hef ferðast um allan heim og heimsótt fallegustu staði í heimi en enginn þeirra toppar Grikkland. Grikkland er griðarstaður, landið, himininn, sjórinn, það er gott fyrir sálina að vera hér,"" sagði Hanks í viðtali fyrr á þessu ári.