Breska Harry Potter stjarnan Tom Felton hneig niður á miðju golf­móti stjarnanna í Wisconsin í Banda­ríkjunum í dag. Banda­ríski slúður­miðilinn Pa­geSix greinir frá þessu.

Miðillinn birtir jafn­framt myndir af at­vikinu en þar má sjá að leikarinn, sem fór með hlut­verk Draco Mal­foy í fantasíu­myndunum, er með með­vitund. Segir í um­fjölluninni að ekki hafi heyrst neitt frá leikaranum eða tals­mönnum hans vegna málsins.

Gerist þetta einungis degi eftir að Felton fagnaði 34 ára af­mælinu sínu. Hann þakkaði fylgj­endum sínum kær­lega fyrir öll skila­boðin og ástina í ein­lægri færslu á sam­fé­lags­miðlinum Insta­gram í gær.

Felton var á á­tjándu holu vallarins þegar hann hneig niður. Ekki er vitað hvað olli því. Fjöldi stjarna var einnig á golf­vellinum á mótinu sem haldið er í aðdraganda Ryder bikarsins. Þar má nefna Man­dy Rose, Toni Kukoc, Mike Eruzione, Stephani­e Szos­tak og Dan Jan­sen svo ein­hverjir séu nefndir.

Keyra varð leikarann af velli.
Fréttablaðið/Getty
Fréttablaðið/Skjáskot