Banda­ríski stór­leikarinn Tom Cru­ise trylltist og jós fúk­yrðum yfir starfs­menn á setti kvik­myndarinnar Mission: Impossi­ble 7 í London vegna brota á starfs­reglum gegn CO­VID-19 smiti á settinu. New York Timesgreinir frá málinu en breska götu­blaðið The Sun birti hljóð­upp­töku af settinu. Hlusta má á hana neðst í fréttinni.

„Við erum að skapa þúsundir starfa,“ heyrist Cru­ise öskra í hljóð­upp­tökunni. „Ég vil ekki sjá þetta aftur! Aldrei! Og ef þið fylgið þessu ekki, eruð þið rekin!“ segir hann svo.

Svo virðist vera sem leikarinn hafi tryllst eftir að hafa séð tvo starfs­menn standa þétt upp að hvor öðrum við tölvu­skjá og þar með virða að vettugi fjar­lægðar­tak­markanir á settinu.

Í um­fjöllun New York Times kemur fram að Paramount Pictures, fram­leiðandi kvik­myndarinnar hafi neitað að tjá sig vegna málsins. Tökum á myndinni var snar­lega hætt í Fen­eyjum í febrúar síðast­liðnum vegna heims­far­aldursins.

Fram­leiðsla hófst svo að nýju í septem­ber og hefur færst á milli Ítalíu, Noregs og Bret­lands. Fram­leiðsla var svo stöðvuð um stund í októ­ber eftir að tólf starfs­menn á setti smituðust á Ítalíu af vírusnum.

Í frétt New York Times segir að leikarinn hafi á­varpað um fimm­tíu starfs­menn í London. Þar segir hann starfs­fólkinu að þau séu hinn „gyllti standard“ Hollywood. Hann segir jafn­framt að hann sætti sig ekki við af­sökunar­beiðnir vegna málsins. Þúsundir reiði sig á hópinn.

„Þið getið sagt þetta við fólkið sem er að missa heimili sín af því að iðnaðurinn okkar er lokaður,“ segir leikarinn og bölvar svo. „Það mun ekki færa þeim mat á borðið þeirra eða borga fyrir menntun þeirra.“