Launa­summa lækkaði eða hélst svipuð árið 2020 hjá öllum menningar­greinunum sem Hag­stofan tók saman, nema hjá tölvu­leikjum. Fyrstu tölur um launa­summu hjá tölvu­leikjum eru frá árinu 2015 og var þá rétt rúmir tveir milljarðar en árið 2020 var hún tæp­lega þrír og hálfur milljarður. Þetta kemur fram í menningar­vísum Hag­stofu Ís­lands.

Sam­kvæmt tölum frá Statista hefur sala tölvu­leikja á heims­vísu aukist um 63 prósent frá upp­hafi far­aldursins í mars 2020. Ná­lægðar­mörk og sam­komu­tak­markanir eru taldar hafa haft á­hrif á þessa aukningu.

Launa­summa hjá kvik­myndum og sjón­varp, fjöl­miðlum og hönnun og arki­tektúr fór hækkandi eftir árið 2010 en allar þessar greinar hafa tekið dýfu á seinustu árum. Fjöl­miðlar fara frá tæp­lega 8,2 milljörðum árið 2017 og niður í rúma 5,3 milljarða árið 2020.

Kvik­myndir og sjón­varp náðu á­kveðnum há­punkti árið 2017 með launa­summu upp á rúma 7,4 milljarða en lækkaði niður í tæpa 5,4 milljarða árið 2018 og hefur haldist nokkuð jafnt síðan, lækkar lítil­lega árið 2020.

Hönnun og arki­tektúr hafa verið í vexti frá árinu 2010 þegar launa­summan var rúmir 1,7 milljarðar til ársins 2018 þegar hún var tæp­lega sex milljarðar. Árið 2020 var hún tæpir 5,1 milljarðar.

Fjöldi starfandi í menningar­greinum á Íslandi hefur í flestum tilfellum dregist saman. Starfandi í sviðs­listum voru 460 árið 2020 og fækkar úr tæp­lega 640 áður. Fjöldi starfs­manna í fjöl­miðlun dregst saman frá um 2000 árið 2013 og niður í 900 árið 2020.

Tölur byggja á öllum sem vinna í menningar­greinum sem aðal- eða auka­starf. Í til­kynningu frá Hag­stofunni kemur fram að tölur yfir sjálf­stætt starfandi séu ekki full­komnar og því mögu­leiki að þeim hafi jafn­vel fjölgað.